Reglugerð Fræðslu- og verkefnasjóðs
1. grein. Heiti sjóðsins
Sjóðurinn heitir Fræðslu- og verkefnasjóður Ungmennafélags Íslands.
2. grein. Tilgangur
Tilgangur sjóðsins er að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar í samræmi við stefnu UMFÍ, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun í félagsmálum og félagsstarfi.
3. grein. Skipan og hlutverk stjórnar
Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur einstaklingum og einum til vara. Stjórn UMFÍ skipar stjórn sjóðsins milli þinga. Kjörtímabil sjóðsstjórnar er samhliða kjörtímabili stjórnar UMFÍ, eða tvö ár. Verkefni sjóðsstjórnar er að úthluta fé úr sjóðnum og fylgjast með nýtingu styrkja.
Sjóðsstjórn setur sér nánari vinnureglur varðandi úthlutun.
4. grein. Fjármagn
Tekjur sjóðsins skulu vera ákveðinn hundraðshluti af lottó tekjum samkvæmt reglugerð um úthlutun lottó tekna, nú 7%, frjáls framlög einstaklinga og félaga, eigin vaxtatekjur og aðrar fjáraflanir sem henta þykja hverju sinni. Sjóðsstjórn er heimilt að leita eftir viðbótarfjármagni frá öðrum aðilum.
5. grein. Umsóknir
Úthlutun úr sjóðnum fer fram tvisvar á ári. Umsóknir skulu berast skrifstofu UMFÍ, á þar til gerðu eyðublaði. Skilafrestur umsókna er annars vegar til og með 1. maí og hins vegar til og með 1. nóvember ár hvert. Sjóðsstjórn skal úthluta úr sjóðnum í síðasta lagi mánuði eftir að umsóknarfrestur rennur út.
Fyrir hverja úthlutun skal auglýsa eftir umsóknum í sjóðinn með því að senda kynningarpóst á sambandsaðila, setja auglýsingu á vef UMFÍ og á öðrum opinberum vettvangi. Í auglýsingum eftir umsóknum í sjóðinn skal fylgja með slóð á vefsíðu UMFÍ. Þar komi fram nánari upplýsingar um sjóðinn, og yfirlit yfir þá styrkþega, styrkupphæðir og verkefni sem hafa hlotið styrk úr sjóðnum.
Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til að afla sér nánari upplýsinga en þeirra sem fram koma á umsóknareyðublaði og leita umsagna annarra aðila. Sjóðsstjórn metur hverja umsókn til samþykktar eða synjunar. Verði umsókn samþykkt til styrkveitingar skal sjóðsstjórnin ákveða hversu háan styrk viðkomandi verkefni hlýtur. Umsækjendur geta óskað eftir rökstuðningi sjóðsstjórnar við sinni umsókn.
6. grein. Skilyrði
Rétt til umsóknar úr sjóðnum eiga sambandsaðilar UMFÍ, aðildarfélög sem eru virk í starfi og deildir innan þeirra.
Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.
Sjóðsstjórn er heimilt að veita styrki úr sjóðnum að eigin frumkvæði til verkefna sem ekki teljast til árlegra verkefna hreyfingarinnar.
Sjóðurinn styrkir ekki tækja-, áhalda- og búnaðarkaup, fundakostnað (þ.m.t. veitingar) og almennan rekstur félaga. Sjóðsstjórn er heimilt að kveða nánar á um þetta í vinnureglum sínum, sbr. 3. gr.
7. grein. Uppgjör
Öllum sem hljóta styrk úr sjóðnum er skylt að skila skýrslu til UMFÍ eftir að verkefninu lýkur, um nýtingu styrksins, fyrirkomulag, helstu efnisatriði og árangur. Skýrslunni skal einnig fylgja afrit af reikningum fyrir útlögðum kostnaði. Hafi styrkur ekki verið sóttur 24 mánuðum eftir úthlutun fellur hann niður.
8. grein. Reikningar sjóðsins
Sjóðsstjórn skal skila skýrslu til stjórnar UMFÍ þar sem m.a. er gerð grein fyrir styrkveitingum og fjárreiðum sjóðsins. Rekstrar- og efnahagsreikningur sjóðsins skal birta árlega í ársskýrslu UMFÍ, sem lögð er fram á Sambandsþingi og sambandsráðsfundi.
Það endurskoðunarfélag sem sinnir endurskoðun reikninga UMFÍ hverju sinni, er jafnframt endurskoðunarfélag sjóðsins.
9. grein. Gildistími og breytingar
Reglugerð þessari verður aðeins breytt á Sambandsþingi UMFÍ og þarf að hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Samþykkt á 52. Sambandsþingi UMFÍ 2021 á Húsavík. Tekur gildi 1.1.2022