Fara á efnissvæði

Aðdragandi og skipulag

Aðdragandi

UMFÍ og ÍSÍ hafa lengi stafrækt vinnuhópa til að skoða stöðu íþróttahéraða í landinu. Alls eru íþróttahéruð landsins 25 um land allt, með ólika starfsemi og virkni.  

Úthlutun fjármagns frá lottó til íþróttahéraða og aðildarfélaga þeirra hefur verið mismunandi og reglur hjá UMFÍ og ÍSÍ ólíkar. Sameiginlegar nefndir samtakanna hafa unnið tillögur varðandi samræmda skiptingu lottófjármuna sem stjórnir og nefndir samtakanna hafa komið sér saman um.

Hagsmunaaðilar um allt land, stórir sem smáir, koma að skipulaginu. Tekið er tillit til víðtækra sjónarmiða. 

Áhersla er á að niðurstaðan tryggi aukið fjármagn út á land, samræmdar reglur verði óháð aðild að samtökunum og sérstök áhersla lögð á að uppfylla markmið samtakanna og stjórnvalda. 

 

Frá Sambandsþingi UMFÍ 2023

Tillaga sem samþykkt var á þingi um íþróttahéruð:

„53. Sambandsþing UMFÍ haldið á Hótel Geysi í Haukadal 20.-22. október 2023, samþykkir að UMFÍ, í samráði við ÍSÍ og íþróttahéruðin, vinni að því að setja á laggirnar 8 svæðisstöðvar um landið, til stuðnings íþróttahéruðum landsins. Verkefnið feli hvorki í sér breytingu á lýðræðislegri skiptingu íþróttahéraða né breytingar á atkvæðaskiptingu á þingum ÍSÍ og UMFÍ. Skilyrði fyrir slíkum starfssvæðum er að hægt verði að tryggja fjárstuðning frá ríkinu til verkefnisins, með hliðsjón af svæðisskiptum verkefnum ríkisins sem falla vel með verkefnum og skyldum íþróttahreyfingarinnar.“

 

Reglugerð um lottó og lóttóúthlutanir

Eftirfarandi tillaga var samþykkt á 53. Sambandsþing UMFÍ. 

Lottóreglur og lottóúthlutanir

I. Skipting lottótekna UMFÍ:

  1. 79% til sambandsaðila.
  2. 14% til UMFÍ.
  3. 7% til Fræðslu- og verkefnasjóðs UMFÍ, úthlutun samkvæmt reglugerð sjóðsins.

II. Skipting lottótekna sambandsaðila UMFÍ: 

Hluti sambandsaðila (79%) verði skipt þannig:

  • 15% til reksturs svæðisskrifstofa íþróttahéraða.
  • 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri 31. desember næstliðins árs.

III. Regla vegna skiptingar til reksturs svæðisskrifstofa íþróttahéraða

Úthlutun á hluta til reksturs svæðisskrifstofa er ekki háð skilyrðum. 

IV. Regla vegna skiptingar til sambandsaðila

Skilyrði fyrir úthlutun hvers árs til sambandsaðila er að fulltrúi þeirra hafi mætt á síðastliðið sambandsþing / sambandsráðsfund. Hlutur þeirra sem mæta ekki skerðist og er hlutfall ákvarðað af stjórn UMFÍ og kynnt með fundarboði. Stjórn UMFÍ er einnig heimilt að víkja frá skerðingum vegna mætingar komi upp óvænt og ófyrirséð atvik (t.d. veður eða óhöpp).

Eigi íþróttahérað ekki aðild að UMFÍ skal hlutur þess reiknaður í samræmi við reglurnar um íbúafjölda 18 ára og yngri 31. desember næstliðins árs. Hlutdeild íþróttahéraðsins er deilt út til UMFÍ en áður skal taka tillit til þess að ef innan íþróttahéraðsins sé félag með beina aðild að UMFÍ þá fær viðkomandi félag fjárhæð sem nemur hlutdeild þess af iðkendum 18 ára og yngri innan íþróttahéraðsins skv. nýjustu starfsskýrsluskilum í skilakerfi íþróttahreyfingarinnar.

V. Um úthlutunFyrir 15. hvers mánaðar skal úthluta öllum ágóða sem borist hefur fyrir næsta mánuð á undan. Með hverri greiðslu skal fylgja skilagrein sem sýni forsendur fyrir úthlutun.

Fyrirvari
Þessar breytingar taka gildi eftir að samningar nást við ríkisvaldið um að það leggi fram sambærilegan fjárhagslegan stuðning til svæðisskrifstofa íþróttahéraða, m.a. með vísan til farsældarlaga nr. 86/2021. Fram til þess tíma gilda áðurgildandi reglur. Hafi samkomulag milli UMFÍ, ÍSÍ og stjórnvalda ekki náðst fyrir sambandsþing UMFÍ 2025, skal sambandsþing þá taka afstöðu til framhalds málsins.