100 skráðir til leiks á Allir með-leikunum
„Börn með fötlun vilja tilheyra sama íþróttafélagi og vinir þeirra eru í. Við viljum stefna á að í framtíðinni þyki eðlilegt að 6 ára börn með fötlun byrji að æfa með sínu íþróttafélagi eins og önnur börn. Ef við viljum ná árangri þá þurfum við að gera það í gegnum íþróttafélög og hverfafélögin,“ segir Valdimar Gunnarsson, verkefnisstjóri Allir með.
Valdimar var í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær og ræddi þar um Allir með-leikana sem fara fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardalshöll og fimleikasal Ármanns á laugardag. Rúmlega 100 þátttakendur á aldrinum 6-16 ára eru nú þegar skráðir til leiks.
Valdimar segir Allir með-leikana verða íþróttaveislu og eitt af þremur verkefnum sem hafa það að markmiði að fjölga iðkendum með fötlun innan íþróttahreyfingarinnar.
Markmið verkefnisins Allir með er að fjölga tækifærum iðkenda með fötlun í íþróttum. Það er unnið í samvinnu við íþróttahreyfinguna og stjórnvöld. Samstarfsaðilar eru ÍSÍ, UMFÍ og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF). Það er til þriggja ára og er styrkt af þremur ráðuneytum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Hvatasjóður fyrir íþróttafélög
Í viðtalinu á Rás 2 benti Valdimar á að á Íslandi eru rúmlega 3.000 börn með fatlanir. Einungis 4% þeirra eru innan íþróttahreyfingarinnar. Það eru einungis um 200 börn á öllu landinu og eru flest þeirra á aldrinum 16-17 ára.
„Yngri börnin eru ekki með,“ sagði Valdimar og bætti við að tækifæri vanti fyrir þau enda stefnt að því að börn með fötlun geti stundað íþróttir með sínu íþróttafélagi eins og börn sem ekki eru með fötlun. Fjölga þurfi tækifærum innan íþróttahreyfingarinnar.
Valdimar hefur heimsótt fjölda íþróttafélaga um allt land og kynnt verkefnið fyrir forsvarsfólki þeirra. Helstu pælingarnar sem fólk viðrar við hann eru að ekki sé þekking á svæðinu hvernig eigi að þjálfa börn með fötlun og að enginn kunni það hjá þeim.
„Við getum leyst þetta á einfaldan hátt: Með fræðslu. Það er ekkert öðruvísi að þjálfa fatlað barn og ófatlað,“ segir hann. Næst er ætíð spurt, hver eigi að borga.
Allir með- verkefninu fylgir hvatasjóður, sem íþróttafélög geta sótt um í til að opna dyr þeirra fyrir iðkendum með fötlun. Nú þegar er búið að styðja við 20 verkefni víða um land og eru þau ýmist farin af stað eða að gera það.
„Það getur tekið langan tíma að fjölga iðkendum. Það þarf að spyrjast út að þetta sé í boði og að það sé skemmtilegt.
Framundan eru þrjú verkefni sem miða að þessu. Allir með-leikarnir sem verða nú á laugardag, 9. nóvember, Íslandsleikarnir sem verða í mars á hverju ári úti á landi og viðburður á Unglingalandsmóti UMFÍ, sem fram fer á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2025.
Allir með-leikarnir eru íþróttapartý, íþróttaveisla. Ekki verður um keppni að ræða heldur kynningu á fimm íþróttagreinum: Fimleikum, frjálsum íþróttum, fótbolta, handbolta og körfubolta. Íþróttaálfurinn verður á svæðinu með Sollu stirðu, boðið verður upp á pizzaveislu og margt fleira skemmtilegt. Foreldrar þátttakenda eru velkomnir með.
„Við erum að horfa til framtíðar. Allar íþróttir ganga út á að taka þátt og hlakka til. Hópurinn mun alltaf geta látið sig hlakka til,“ segir Valdimar.
Skráning á Allir með
Allar upplýsingar eru á www.allirmed.com.
Þar geta þátttakendur skráð sig. Aðeins kostar 1.500 krónur að taka þátt í Allir með-leikunum, sem standa frá klukkan 10:00 – 15:30 á laugardag.
Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.
Hér að neðan má sjá myndir frá Íslandsleikunum sem fóru fram á Akureyri í vor.