103. ársþing UMSE í Funaborg
103. ársþing Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) var haldið fimmtudaginn 4. apríl síðastliðinn í Funaborg í Eyjafjarðarsveit. Mæting var góð og forseti þingsins var Sigurgeir Hreinsson.
Litlar breytingar voru gerðar á stjórn UMSE. Kristlaug Valdimarsdóttir fyrrum ritari gaf þó ekki kost á sér áfram í starfið og í hennar stað var kjörinn Gunnbjörn Rúnar Ketilsson. Annað hélst óbreytt.
Átta tillögur voru lagðar fyrir þingið. Meðal annars var tillaga um að UMSE greiði helming þátttökugjalda keppenda UMSE á Unglingalandsmóti UMFÍ 1. – 4. ágúst næstkomandi. Ásamt því var fólk hvatt til þess að fjölmenna á Unglingalandsmót UMFÍ og Landsmót 50+ sem fer fram 7. – 9. júní næstkomandi. Einnig var gerð tillaga um breytingu á skiptingu lottófjármuna UMSE og breytingu á kjöri á íþróttamanni ársins. Allar tillögur þingsins voru samþykktar.
Haukur Valtýsson var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ. Haukur hélt ávarp þar sem hann skilaði góðum kveðjum fyrir hönd stjórnar og starfsfólks UMFÍ. Í ávarpi sínu talaði Haukur meðal annars um stofnun svæðastöðva UMFÍ og ÍSÍ og á hvaða hátt þær koma til með að efla íþróttahéruð landsins og samræma starfsemi þeirra á landsvísu. Ásamt því hvernig svæðastöðvarnar falla vel að áherslum og stefnu mennta- og barnamálaráðuneytis í íþróttamálum sem styður við verkefnið. Í lokinn minnti Haukur á sjóði UMFÍ og íþróttasjóð ríkisins sem og hann hvatti til þátttöku á viðburðum UMFÍ komandi sumar.
Ásamt Hauki mætti Viðar Sigurjónsson, sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ sem fulltrúi ÍSÍ á þingið.
Ársskýrslu ungmennasambandsins má finna á heimasíðu UMSE.
Stjórn UMSE
Sigurður Eiríksson, formaður
Þorgerður Guðmundsdóttir, varaformaður
Einar Hafliðason, gjaldkeri
Gunnbjörn Rúnar Ketilsson, ritari
Kristín Thorberg, meðstjórnandi