200 áhorfendur leyfðir á íþróttaviðburðum
Allt að 200 manns mega horfa á íþróttaviðburði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, skíðasvæði og sundstaðir mega taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda og allt að 150 nemendur verða heimilaðir í hverju rými á öllum skólastigum. Fjöldatakmarkanir fara úr 20 manns í 50, samkvæmt nýjum tilslökunum á sóttvarnaaðgerðum sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í morgun.
Breytingarnar taka gildi á morgun, miðvikudaginn 24. febrúar.
Þá segir í reglugerð að sú breyting hefur nú átt sér stað að fyrirkomulag íþróttakennslu barna og ungmenna fellur nú undir almenna reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Ný reglugerð heilbrigðisráðherra veitir umtalsvert svigrúm til íþróttaiðkunar og gilda sömu reglur um íþróttastarf innan skóla og utan frá og með morgundeginum, 24. febrúar.
Breytingar á samkomutakmörkunum í hnotskurn:
- 200 áhorfendur mega vera á íþróttaviðburðum.
- Einn metri verður að vera á milli fólks.
- Gestir mega ekki sitja andspænis hver öðrum nema meira en tveir metrar séu á milli þeirra.
- Þátttaka allra gesta skal skráð þar sem fram kemur nafn, kennitala og símanúmer.
- Allir skulu nota andlitsgrímu og tryggt að fjarlægð milli ótengdra aðila sé meiri en 1 metri.
- Heimilt er að hafa hlé á sýningum en áfengisveitingar og áfengissala á viðburðum er óheimil.
- Koma skal í veg fyrir hópamyndanir, jafnt fyrir og eftir viðburð og í hléi.
- Ef ekki er hægt að uppfylla eitthvert framantalinna skilyrða gildir reglan um 50 manna hámarksfjölda á viðburðinum.
- Almennt verður heimilaður hámarksfjöldi nemenda 150 í hverju rými og blöndun milli sóttvarnahólfa heimil á öllum skólastigum, líka í háskólum.
- Sund- og baðstaðir: Gestir mega vera 75% af leyfilegum hámarksfjölda.
- Heilsu- og líkamsræktarstöðvar: Gestir mega vera 75% af leyfilegum hámarksfjölda. Í hverju rými mega nú að hámarki vera 50 manns.
- Skíðasvæði: Heimilt er að taka á móti 75% af hámarksfjölda af móttökugetu hvers svæðis.
Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns samkvæmt nýjum reglum um samkomutakmarkanir sem taka gildi 24. febrúar.
Reglur um grímunotkun verða óbreyttar og áfram verður 2 metra nándarregla meginviðmið en þó með ákveðnum undantekningum eins og að neðan greinir.
Ítarlegri upplýsingar um breytingu á fjöldatakmörkunum