70 hlupu í Forsetahlaupi UMFÍ á Patreksfirði
„Við erum í skýjunum með Forsetahlaupið. Þetta var svo skemmtilegt og gaman hvað margir tóku þátt,‟ segir Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafna-Flóka, sem stóð að Forsetahlaupi UMFÍ, sem fram fór á Patreksfirði í gær.
Ásgeir lagði hlaupurum línurnar í aðdraganda hlaupsins og ræsti þá.
Um sjötíu manns tóku þátt í hlaupinu, sem jafngildir um 10% af íbúum Patreksfjarðar. Á hinn bóginn komu hlaupararnir víða að. Þótt margir hafi verið úr Vesturbyggð og Tálknafirði komu nokkrir norðan að, frá Súðavík, Ísafirði og Hnífsdal.
Í boði voru þrjár vegalengdir, 1 km hlaup sem margir yngstu þátttakendurnir tóku þátt í, 2,5 km hlaup og 5 km hlaup sem nokkrir reyndari kappar af öllum kynjum og aldri tóku þátt í. Ásgeir var þar á meðal sem hljóp seinni hringinn í 5 km spretti Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.
Sannast sagna var óvíst með hlaupið fram að hlaupadegi enda hávaðarok á sunnanverðum vestfjörðum á föstudag og afleit veðurspá. Vind tók að lægja nokkur strax á hlaupadeg en í stað þess brast á með skúrum.
Ásgeir segir ljóst að veðurguðirnir hafi verið með hlaupurum í liði því þótt skýfall hafi verið öðru hverju þá stytti upp ákkúrat á meðan hlaupararnir skiptust á að hlaupa í meðvindi og mótvindi.
„Við erum mjög ánægð með hlaupið og þátttakendur,‟ heldur hann áfram.