Að jörðu skaltu aftur verða!
Ungt fólk og lýðræði
Ungmennaráð UMFÍ stendur fyrir ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði dagana 22. – 24. september á Reykjum í Hrútafirði. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er, að jörðu skaltu aftur verða sem vísar til umhverfis- og loftlagsmála. Eins og nafnið ber með sér er ráðstefnan fyrir ungt fólk á aldrinum 16 - 25 ára. Engin skylda er að vera í ungmennaráði eða félagi. Allt ungt fólk á tilsettum aldri er velkomið.
Markmið ráðstefnunnar er að efla umhverfisvitund ungs fólks og skapa vettvang til þess að koma saman og ræða hvernig við sem einstaklingar getum lagt okkar að mörkum til þess að bæta umhverfið okkar og draga úr áhrifum loftlagsbreytinga. Gleði og þátttaka eru einnig markmið ráðstefnunnar og að veita þátttakendum tækifæri til þess að kynnast nýju fólki og þjálfun til þess að hafa aukin áhrif á sitt eigið líf og nær samfélag.
Dagskráin verður með fjölbreyttu sniði. Hellings hópefli og samvera. Kynningar með mögnuðum fróðleik. Uppörvandi og hvetjandi málstofur, samtal við ráðamenn, kvöldvökur og önnur skemmtilegheit.
Fyrirhyggja er best
Fjöldi þátttakenda er takmarkaður við 80 þátttakendur svo það borgar sig að bíða ekki of lengi með skráningu. Fullorðinn einstaklingur þarf að fylgja þátttakendum yngri en 18 ára. Þátttökugjald er 15.000 kr. fyrir hvern þátttakanda. Innifalið í gjaldinu eru ferðir, uppihald og ráðstefnugögn. Rúta fer frá þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík á föstudeginum og til baka á sunnudeginum sem þátttakendur eru hvattir til þess að nýta sér. Fyrir þau sem ekki geta nýtt sér rútuna er hægt að sækja um styrk fyrir ferðakostnaði til UMFÍ. Skila þarf inn kvittunum á sérstöku eyðublaði sem sent verður út eftir viðburðinn.
Athygli er vakin á því að viðburðurinn er með öllu vímuefnalaus, á það einnig við um rafsígarettur og nikótínpúða.
Viðburðurinn er styrktur af Erasmus+.
Skráning er hafin og stendur til 19. september. Smelltu hér til þess að opna skráningarhlekk.
Sjá hér fyrir neðan myndband frá ráðstefnunni 2022.