Fara á efnissvæði
18. febrúar 2019

Algjör sprenging í Grindavík

„Það er allt ljómandi flott að frétta úr Grindavík. Ljósin loga frá morgni til kvölds alla daga í knattspyrnuhöllinni því að eldri borgarar nota höllina frá klukkan 6 á morgnana og svo er hún í notkun langt fram eftir kvöldi,“ segir Hadda Guðfinnsdóttir, starfsmaður Ungmennafélags Grindavíkur.

Mikið hefur verið að gera hjá ungmennafélögum í Grindavík. Knattspyrnuhöllin er fyrir löngu uppbókuð og er verið að reisa nýtt 2.000 fermetra íþróttahús sem horft er til að muni bæta alla aðstöðu til íþróttaiðkunar til muna og koma öllum greinum undir þak.

 

Íþróttaiðkunin niðurgreidd

Frístundastyrkur er ekki veittur í Grindavík heldur niðurgreiðir bærinn íþróttastarfið samkvæmt samningi sem ungmennafélagið gerði við bæjarstjórnina á sínum tíma. Iðkendur greiða lága upphæð á hverri önn fyrir íþróttaiðkunina. Það hefur skilað sér í mikilli fjölgun iðkenda. Hadda bendir á að fjöldi iðkenda sé sami kjarni og áður. Félagið er með yfir 80% nemenda í grunnskólanum á aldrinum 6–16 ára í hópi iðkenda.

 

Keppendur og verðlaunahafar á páskamóti sem eldri skákmenn tóku þátt í ásamt þeim yngri.

 

„Þar að auki eru 60–70 börn frá 18 mánaða til 4-–5 ára í íþróttaskólanum. Það er algjör sprengja. Við höfum aldrei upplifað annað eins!“ segir Hadda. Íþróttaskóli Ungmennafélags Grindavíkur er starfræktur á laugardögum yfir vetrartímann. Hadda segir bæði börn og foreldra skemmta sér í skólanum. Íþróttakennarar við grunnskólann í Grindavík aðstoða ungmennafélagið við kennslu barnanna sem er viðbót við hreyfinámið sem börnin fá í leikskólanum. 

Eins og samningur félagsins við bæjarfélagið kveður á um er námskeið í Íþróttaskólanum niðurgreitt af bænum. Önnin kostar aðeins 5.000 krónur. Lágt verðið vekur athygli og ýtir það undir aðsókn í bæði íþróttir almennt og í Íþróttaskólann, að sögn Höddu sem bætir við að sömu sögu sé að segja af sunddeildinni. Þar hafi iðkendum fjölgað mikið.

 

Margir bætast við í sund

„Góðu fréttirnar eru þær að nú er farið að æfa sund fullt af yngri iðkendum, frá sex ára aldri og upp í 16 ára, sem hafa sum hver ekki fundið sig í öðrum íþróttum. Sundlaugin er hreinlega full af krökkum,“ segir Hadda og skýrir fjölgunina líka af því að sunddeildin hafi fengið nýjan þjálfara. Þar er á ferðinni engin önnur en Margrét Rut Reynisdóttir, sem líka þjálfar yngri flokka kvenna í knattspyrnu. Þessi kraftmikli þjálfari er ung að árum, rúmlega tvítug, en hefur verið í íþróttum frá unga aldri.

Margrét er ekki bara öflugur þjálfari heldur fyrirmynd í íþróttum. Hún var sem dæmi eini Grindvíkingurinn sem þátt tók í Unglingalandsmóti UMFÍ þegar það fór fram á Sauðárkróki árið 2009. Þá var hún 12 ára og keppti í sjö greinum. Margrét vann til fjögurra gullverðlauna, fékk eitt silfur og brons.


En það eru ekki bara börn og ungmenni sem stunda íþróttir af krafti í Grindavík. Fólk á miðjum aldri og eldri borgarar láta ekki sitt eftir liggja. Eldri knattspyrnumenn mæta tvisvar í viku, eldri borgarar stunda boccía þrisvar í viku og fatlaðir einu sinni í viku.

„Íþróttahúsið okkar er í stöðugri notkun. Það má segja að það sé orðin hálfgerð félagsmiðstöð, þar mætast kynslóðirnar,“ segir Hadda hjá Ungmennafélagi Grindavíkur.

 

Viðtalið við Höddu og umfjöllum um UMFG birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Allt blaðið er hægt að lesa á vef www.umfi.is:

Skinfaxi 4. tbl. 2018