Fara á efnissvæði
23. október 2024

Allir með-leikarnir: Stórhátíð með íþróttaívafi

Íþróttapartý verður í Laugardalnum í Reykjavík fyrir iðkendur með sérþarfir á grunnskólaaldri 9. nóvember. Stefnt er á að halda það árlega. Valdimar Gunnarsson segir aukinn sýnileika iðkenda með fötlun opna dyr hjá fleiri íþróttafélögum.

„Allir með-leikarnir verður stórkostlegt litríkt og líflegt íþróttapartý sem allir iðkendur með sérþarfir geta tekið þátt í, hvort sem þau æfa með íþróttafélagi eða ekki,“ segir Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri Allir með. Leikarnir verða haldnir laugardaginn 9. nóvember. Markmið leikanna er að kynna verkefnið Allir með og skapa vettvang fyrir iðkendur með sérþarfir til að taka þátt í íþróttum.

Gögn sýna að á Íslandi eru rúmlega 3.000 börn með fötlun sem eru 17 ára og yngri. Aðeins 4% þeirra æfa íþróttir og gera það rétt rúmlega 200 iðkendur á aldrinum 6 - 16 ára hjá öllum íþróttafélögum á Íslandi.

 

Markmið og undirbúningur

Markmiðið með Allir með-leikunum er að búa til vörður fyrir þátttakendur í íþróttum og hvetja þá til að stefna að þátttöku í stærri mótum eins og Íslandsleikunum og Unglingalandsmótinu. Valdimar hefur sent bréf til allra íþróttafélaga sem taka þátt í verkefninu og hvetur þau til að senda iðkendur sína á viðburðinn. Hann hefur þegar fengið jákvæð viðbrögð frá ýmsum, þar á meðal frá Hornfirðingum, sem bjóða iðkendum með sérþarfir upp á fimleika.

Þrjátíu nemendur í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands vinna með skipuleggjendum leikanna.

 

Fjölbreytt dagskrá

Allir með-leikarnir verða í fimleikasal Ármanns, í frjálsíþróttahöllinni og í Laugardalshöllinni. Fimm íþróttagreinar verða í boði: Frjálsar íþróttir, fótbolti, handbolti, karfa og fimleikar. Valdimar segir töfra leikanna felast í því að þátttakendur fá að prófa allar greinarnar sem í boði verða.

Stefnt er að því að Allir með-leikarnir byrji klukkan 10:00 og ljúki klukkan 15:30 með flottu lokahófi og heilmiklu stuði, pizzaveislu og hellings húllumhæi.

Á Íslandsleikunum í vor var keppt í körfubolta og knattspyrnu. Valdimar sér fyrir sér að Íslandsleikarnir haldi áfram að þróast og muni þegar upp verður staðið líkjast Allir með-leikunum. „Þeir geta líka þróast eins og Unglingalandsmót UMFÍ. Þeir yrðu þá aldrei tvö ár í röð á sama stað heldur flakki um landið. Allir með-leikarnir yrðu á móti fastinn og verði áfram á höfuðborgarsvæðinu.

Valdimar bindur vonir við að þátttakendur á Allir með-leikunum verði rúmlega tvö hundruð, sem er nokkuð fleiri en á Akureyri.

 

Samvinna og stuðningur

Allir með-leikarnir eru skipulagðir í samstarfi við UMFÍ, ÍSÍ og sérsambönd þeirra íþróttagreina sem boðið verður upp á á leikunum. Sú samvinna segir Valdimar af hinu góða enda tengi þá fleiri við þátttöku iðkenda með sérþarfir í íþróttum. Í kjölfarið geti svo farið að iðkendum fjölgi hjá íþróttafélögum á Íslandi.

Valdimar leggur áherslu á mikilvægi þess að öll íþróttahreyfingin standi saman og taki þátt í verkefninu. 

Reikna má með því að einhver af þeim fimmtán íþróttafélögum um allt land sem hafa fengið styrk úr Hvatasjóði Allir með taki þátt í leikunum. Íþróttafélögin er meðal annars að finna á Akureyri, Akranesi, Ísafirði, Selfossi og víðar.

 

Flestir komi með

Allir með-leikarnir verða litskrúðug og myndræn hátíð íþrótta þar sem allir geta tekið þátt og notið. Valdimar býst ekki við öðru en að viðburðurinn verði vel sóttur og að hann muni stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna með sérþarfir í íþróttum. Einn af þröskuldunum þar er skortur á fyrirmyndum. Aldrei er því að vita nema stór nöfn verði á leikunum, bæði í aðstoð við þátttakendur og mörgum öðrum hlutverkum.

„Við erum að vinna í þessu og vonum að fyrirmyndir barna og ungmenna taki þátt í þessu verkefni með okkur svo fleiri þátttakendur taki þátt í íþróttum,“ segir Valdimar Gunnarsson að lokum.

 

Hægt er að fræðast meira um Allir með-leikana á vefsvæði verkefnisins Allir með. Fræðast meira

Viðtalið við Valdimar og umfjöllun um Allir með-leikana má lesa í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið er á leið til áskrifenda og í dreifingu um allt land. Blaðið er hægt að lesa í heild sinni á umfi.is. Þú getur smellt hér til að lesa blaðið.