Fara á efnissvæði
31. júlí 2024

Allskonar upplýsingar um tjaldsvæði og fleira

Nú er Unglingalandsmót UMFÍ að renna upp.  Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga fyrir verslunarmannahelgina.  

 

Tjaldsvæði

Töluvert hefur rignt á Vesturlandi að undanförnu. Starfsmenn sveitarfélagsins Borgarbyggðar og framkvæmdanefnd mótsins hafa brugðist af krafti við því og kölluðu út sitt allra besta lið til að laga tjaldsvæði Unglingalandsmóts UMFÍ við Kárastaði. Stórtæk tól og tæki hafa unnið á svæðinu undanfarna daga. 

Bregðast þarf við breyttum aðstæðum. Þær felast í því að ákveðið hefur verið að fella niður svæðaskiptingu eftir íþróttahéruðum á tjaldsvæðinu. Einungis verður um eitt svæði að ræða þar sem hver og einn finnur svæði sem hentar best viðkomandi og getur numið land þar sem hverjum og einum líkar best. Einnig hafa ákveðin svæði verið lokuð af.

Á tjaldsvæðinu við hliðina á skemmtitjaldinu er búið að útbúa afar gott bílastæði. Við óskum eftir því að sem flestir noti bílana sem minnst, rétt til að koma hýsi fyrir, en leggja þeim síðan á bílastæðinu. Við skulum frekar leyfa bílunum að hvíla sig á bílastæðinu á meðan móti stendur og taka frekar strætó (þú getur lesið meira um hann hér á eftir).

Að öðru: Vinnusvæði Steypustöðvarinnar er í nágrenni tjaldsvæðisins. Virðum mörk vinnusvæðisins. Við óskum eftir því sérstaklega að forráðafólk gæti að ungum mótsgestum svo þau fari sér ekki að voða. 

Mótsgestir á tjaldsvæði þurfa límmiða til að eftirlitsaðilar og björgunarsveitin viti að viðkomandi tilheyri mótshaldinu. Hægt er að nálgast límmiðana í þjónustumiðstöð Unglingalandsmótsins. Límmiðana þarf að setja í tjöld og bíla.  

 

Afhending mótsgagna

Móttaka er í þjónustumiðstöð Unglingalandsmótsins í Menntaskóla Borgarfjarðar / Hjálmakletti. Hún opnar klukkan 15:00 á morgun, fimmtudag. Þar verður þjónustumiðstöðin fimmtudag og föstudag. Á laugardag færist hún yfir í Grunnskóla Borgarness

Öll sem sem ætla að taka þátt í keppnum á mótinu þurfa að bera mótsarmband alla verslunarmannahelgina. Mótsarmbandið er á meðal mótsganga sem afhent eru í þjónustumiðstöðinni. Yngri systkini þátttakenda geta líka fengið armband en það er meira til þess að vera með í stemmingunni og fá armband. 

 

Fyrirkomulag keppnisgreina

Nú þegar liggur fyrir skipulag nokkurra keppnisgreina og er verið að leggja lokahönd á þær sem út af standa. Þú og þínir geta nálgast upplýsingar um hverja grein undir flipa hverrar keppnisgreinar á umfi.is.  

Strætó

Bílastæði eru af skornum skammti á flestum keppnissvæðum. Við mælum þess vegna til þess að mótsgestir á tjaldsvæðinu leyfi bílum sínum að njóta þess að vera óhreyfðir. 

Það er gaman að taka strætó. Við mælum með því að sem flestir mótsgestir nýti sér þann ferðamáta. Strætó ekur frá tjaldsvæðinu að íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi viðstöðulaust alla mótsdagana. Fyrsti bíllinn fer af stað frá tjaldsvæðinu klukkan 8:30 og sá síðasti snýr aftur frá mótssvæði eftir að síðustu keppnisgrein lýkur.  

 

Hvar og hvernig…..?

Ef þú ert í vandræðum að sjá hvaða liði þú ert og hvaða greinum þá er hér hægt að sjá það í abler appinu: 

Svona er þetta gert:

  • Farðu inn á prófílinn þinn.  

  • Þar velurðu: Markaðstorg. 

  • Því næst velurðu skammstöfun þína í horninu hægra megin.  

  • Þar velurðu: Skráningar. 

  • Svo velur þú unglingalandsmótsskráningu viðkomandi 

  • Hér velurðu: Smelltu hér til að skrá þig í greinar. 

  • Nú ættirðu að sjá allar greinar.  

  • Hafðu líka í huga að í liðskeppnum sérðu líka nafnið á liðinu. Til að sjá aðra þátttakendur í liðinu þarftu að velja tjáknið með mörgum hausum.  

 

Við svörum öllum fyrirspurnum á umfi@umfi.is. Ef þú ert í vafa um hvaðeina smelltu þá í skeyti og við leysum málið. 

Við hlökkum til að sjá ykkur í Borgarnesi!