Fara á efnissvæði
30. júlí 2024

Allt á fullu fyrir Unglingalandsmót

„Við höfum undirbúið Unglingalandsmót UMFÍ svo vel síðustu mánuði að ekkert getur komið okkur á óvart. Fólk hefur haft áhyggjur af tjaldsvæði mótsins í Borgarnesi enda þarf það að þola gríðarlegan fólksfjölda, stór hjólhýsi og bíla. En við erum við öllu búin, erum að taka út aðstæður og erum með varaplan til taks ef þörf krefur,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ.

Ómar og frjálsíþróttahetjan Silja Úlfarsdóttir, verkefnastjóri mótsins, vinna nú hörðum höndum með Borgfirðingum að lokaverkum fyrir Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer í Borgarnesi um verslunarmannahelgina.

Skráningu á mótið lauk í gær og er hún góð.

„Við fundum það í íþróttahreyfingunni að eftir COVID-faraldurinn dró mjög úr þátttöku á mótum og stórum viðburðum. Miðað við skráningarnar nú hefur það gengið til baka að stórum hluta þótt auðvitað hafi mynstrið breyst. Fólk skráir sig sem dæmi mun seinna á viðburði en áður. Við vitum líka af mörgum sem ætla að kíkja við á mótið enda góður bíltúr frá höfuðborgarsvæðinu til Borgarness og því hægðarleikur að mæta á mótið að morgni og fara heim að kvöldi eftir tónleika, sem verða á hverju kvöldi,“ segir Ómar.
 

Risaviðburður fyrir alla fjölskylduna

Þetta er 24. Unglingalandsmót UMFÍ og hefur Ómar skipulagt þau í 20 ár. Hann hefur því staðið frammi fyrir allskonar áskorunum í gegnum árin.

Mótið um helgina hefst á fimmtudag með keppni í golfi og allskonar afþreyingu. Blásið verður til keppni í fleiri greinum strax á föstudagsmorgun. Þá verður keppt í körfubolta, grashandbolta, upplestri, pílukasti, bogfimi og mörgu fleiru. Frjálsar íþróttir eru þar á meðal. Allskonar afþreying verður í boði fyrir alla fjölskylduna. Á tjaldsvæðinu hefur verið komið upp stóru skemmtitjaldi þar sem tónleikar fara fram á hverju kvöldi.
Á tónleikunum koma meðal annars fram bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór, GDRN, Júlí Heiðar, Björgvin Þór sem sló í gegn í Idolinu og mörg fleiri.

Unglingalandsmót UMFÍ er ætlað 11 – 18 ára keppendum og hefur það alltaf höfðað vel til fjölskyldufólks enda er innifalið í miðaverðinu aðgangur að tjaldstæði, afþreyingu, tónleikum og öllu saman.
 

Aukatjaldsvæði á kantinum

Unglingalandsmót UMFÍ er haldið í samstarfi við Borgarbyggð og Ungmennasamband Borgarfjarðar.

Ómar og forsvarsfólk bæði íþróttasambands og sveitarfélags funda á hverjum degi og hafa vökul augu á öllu. Mörg hundruð sjálfboðaliðar úr Borgarbyggð taka bæði þátt í undirbúningi mótsins og framkvæmd þess alla helgina.

„Það er gríðarlega góð stemning fyrir mótinu í Borgarnesi. Þarna hittast svo margir af öllu landinu að keppa og skemmta sér. Vinahópar koma saman og eignast aðra vini sem þau hitta svo öll á öðrum mótum í vetur. Við höfðum auðvitað áhyggjur af tjaldsvæðinu við Kárastaði enda hefur íslenska sumarið vökvað grasið ágætlega. En nú er aðeins spáð vætu fram að fimmtudegi. Fínasta veður verður um helgina og fínn hiti, í kringum 15 gráður. Þetta er frábært keppnisveður með smá andavara sem kælir keppendur,“ segir Ómar og bætir við að fyrirtækið Borgarverk vinni nú að því að laga burðarlag vega á tjaldsvæðinu. Búið er að leggja rafmagn og gera klárt fyrir mótið.

„Ef eitthvað kemur upp á þá erum við með aukatjaldsvæði á kantinum sem við getum fullbúið með litlum fyrirvara ef á þarf að halda.“