Ásmundi þakkaður stuðningur við svæðisstöðvar
Ásmundi Einar Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, voru færðar þakkir á sambandsráðsfundi UMFÍ fyrir skjót viðbrögð og í framhaldinu stuðning við svæðisstöðvar íþróttahéraðanna. Svæðisstöðvarnar eru samstarfsverkefni UMFÍ, ÍSÍ og stjórnvalda og er stuðningurinn til tveggja ára. Samhliða því var stofnaður hvatasjóður til þess að styrkja enn frekar áherslur svæðisstöðvanna.
Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna eru átta talsins um allt land og eru tvö stöðugildi á hverjum stað.
Tilgangurinn er að þær styðji íþróttahéruðin, efli íþróttastarf á landsvísu með þjónustu við íþróttahéruð og félög með samræmdum hætti, nýti betur mannauð og vinna að því að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna af erlendum uppruna. Með þessu fyrirkomulagi er horft til þess að ná megi markmiðum sem stjórnvöld hafa sett með lögum um farsæld barna, íþróttalögum, íþróttastefnu ríkisins og byggðaáætlun.
Fram kom í máli Jóhanns Steinars Ingimundarsonar, formanns UMFÍ, í ávarpi hans á sambandsráðsfundi UMFÍ sömu helgi, að stærsta verkefni íþróttahreyfingarinnar fram undan felist í því að halda áfram að virkja svæðisstöðvar íþróttahéraðanna og nýta tækifærin sem þau bjóða upp á.
Stjórn UMFÍ bauð starfsfólki svæðisstöðvanna að Varmalandi í Borgarfirði í tengslum við sambandsráðsfundinn svo hópurinn gæti hitt fulltrúa sambandsaðila UMFÍ og rætt við þá um starfið.
Ásmundur Einar kom sömuleiðis með starfsfólki að Varmalandi, hitti starfsfólk svæðisstöðvanna ásamt starfsfólki UMFÍ og ÍSÍ. Áhugaverðar og gagnlegar umræður spunnust um verkefnið og svaraði Ásmundur ýmsum spurningum sem starfsfólkið hafði.