Ástin hlaut Hvatningarverðlaun UMFÍ
Þróttur Vogum hlaut í dag Hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir átaksverkefnið Fögnum ástinni, en markmið þess er að fjölga íbúum í bæjarfélaginu og iðkendum félagsins.
Þetta voru ein verðlaun af þremur. Hin hlaut Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) fyrir verkefnið Virkni og vellíðan í Kópavogi og Ungmennasamband Austur-Húnvetninga (USAH) fyrir samstarf aðildarfélaganna Fram og Hvatar.
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhentu verðlaunin.
Þróttur tók í haust höndum saman með kynlífstækjaversluninni Blush í verkefninu. Félagið boðaði í kjölfarið til Ástarmánaðar Þróttar í september á þessu ári. Í fréttum af átakinu segir að nemendum hafi fækkað í grunnskóla sveitarfélagsins og iðkendum í barna og unglingastarfi sömuleiðis. Allir íbúar Voga fengu afslátt af unaðsvörum hjá Blush og öll börn sesm fæðast í maí og júní á næsta ári frítt í íþróttaskóla barnanna árin 2025 til 2027.
Virkni og vellíðan er verkefni sem var hleypt af stokkunum í Kópavogi árið 2020 og er það hluti af heilsueflingu eldri borgara í bæjarfélaginu. Verkefnið er unnið í samstarfi við íþróttafélögin Breiðablik, Gerplu og HK.
Gunnar Helgason tók við verðlaununum fyrir hönd Þróttar Voga á sambandsráðsfundi UMFÍ sem haldinn er á Höfn í Hornafirði í dag. Fundinn sitja rúmlega 40 fulltrúar sambandsaðila UMFÍ af landinu öllu. Guðmundur G. Sigurbergsson, formaður UMSK tók við verðlaunum fyrir hönd sambandsins og Snjólaug Jónsdóttir fyrir hönd USAH.