Ástþór í ungmennaráði UMFÍ: Ungt fólk hefur áhrif!
„Ungt fólk vill hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Áhrif COVID-19 á málefni ungs fólks eru auðvitað gríðarleg. En okkur stendur ekki á sama. Þótt heimsfaraldur geysi þá kýs ungt fólks að hittast, ræða saman og reyna að hafa jákvæð áhrif á líf sitt og umhverfi,‟ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður Ungmennaráðs UMFÍ.
Hann og ráðið standa þessa dagana í stöngu við lokaundirbúning ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði, sem fer fram fimmtudaginn 17. september næstkomandi í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega víða um land síðastliðin 11 ár og er þetta í fyrsta sinn sem hún verður haldin í Reykjavík.
Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur undanfarin 11 ár verið einn stærsti vettvangur ungs fólks á Íslandi til þess að koma saman, ræða málefni líðandi stunda, eiga samtal við ráðamenn og láta í sér heyra. Fjöldi ungs fólks hefur þegar skráð sig á ráðstefnuna í Hörpu.
„Allir hafa þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Ungt fólk er þar engin undantekning. Við lítum hins vegar á björtu hliðarnar og sjáum aðstæðurnar nú sem tækifæri til að sýna fram á alvöru ungs fólks og vilja okkar til þess að hafa áhrif,‟ heldur hann áfram.
Ráðamenn mæta á ungmennaráðstefnu
Yfirskrift ráðstefnunnar þetta árið er: Lýðræðisleg áhrif. Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif?
Ráðstefnan er samræðuvettvangur ungs fólks á aldrinum 16 - 25 ára. Markmið og tilgangur ráðstefnunnar er að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi og gefa því verkfæri og þjálfun til þess að auka áhrif sín í samfélaginu.
Tugir ungmenna hvaðanæva að af landinu hafa þegar skráð sig á ráðstefnuna. Fjöldi ráðamanna hefur líka boðað komu sína á ráðstefnuna í Hörpu til þess eiga samtal við þátttakendur.
Þar á meðal eru: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Andrés Ingi Jónsson þingmaður, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins og Sanna Magdalena, borgarfulltrúi. Fleiri eru á kantinum og er mjög líklegt að fleiri bætist við eftir því sem nær dregur.
Hvað er ungmennaráð UMFÍ?
Ungmennaráð UMFÍ vinnur með stjórn UMFÍ í málefnum sem snerta ungt fólk. Ungmennaráð UMFÍ er skipað níu ungmennum af öllu landinu. Ráðið leggur áherslu á jafna skiptingu kynja, aldursdreifingu og búsetu. Stærsta verkefni ráðsins ár hvert er ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði.
Meiri upplýsingar um Ungt fólk og lýðræði