Fara á efnissvæði
12. september 2020

Ástþór í ungmennaráði UMFÍ: Ungt fólk hefur áhrif!

„Ungt fólk vill hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Áhrif COVID-19 á málefni ungs fólks eru auðvitað gríðarleg. En okkur stendur ekki á sama. Þótt heimsfaraldur geysi þá kýs ungt fólks að hittast, ræða saman og reyna að hafa jákvæð áhrif á líf sitt og umhverfi,‟ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður Ungmennaráðs UMFÍ.

Hann og ráðið standa þessa dagana í stöngu við lokaundirbúning ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði, sem fer fram fimmtudaginn 17. september næstkomandi í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega víða um land síðastliðin 11 ár og er þetta í fyrsta sinn sem hún verður haldin í Reykjavík.

 

 

Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur undanfarin 11 ár verið einn stærsti vettvangur ungs fólks á Íslandi til þess að koma saman, ræða málefni líðandi stunda, eiga samtal við ráðamenn og láta í sér heyra. Fjöldi ungs fólks hefur þegar skráð sig á ráðstefnuna í Hörpu.

„Allir hafa þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Ungt fólk er þar engin undantekning. Við lítum hins vegar á björtu hliðarnar og sjáum aðstæðurnar nú sem tækifæri til að sýna fram á alvöru ungs fólks og vilja okkar til þess að hafa áhrif,‟ heldur hann áfram.

 

Ráðamenn mæta á ungmennaráðstefnu

Yfirskrift ráðstefnunnar þetta árið er: Lýðræðisleg áhrif. Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif? 

Ráðstefnan er samræðuvettvangur ungs fólks á aldrinum 16 - 25 ára. Markmið og tilgangur ráðstefnunnar er að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi og gefa því verkfæri og þjálfun til þess að auka áhrif sín í samfélaginu.

Tugir ungmenna hvaðanæva að af landinu hafa þegar skráð sig á ráðstefnuna. Fjöldi ráðamanna hefur líka boðað komu sína á ráðstefnuna í Hörpu til þess eiga samtal við þátttakendur.

Þar á meðal eru: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Andrés Ingi Jónsson þingmaður, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins og Sanna Magdalena, borgarfulltrúi. Fleiri eru á kantinum og er mjög líklegt að fleiri bætist við eftir því sem nær dregur.

 

Hvað er ungmennaráð UMFÍ?

Ungmennaráð UMFÍ vinnur með stjórn UMFÍ í málefnum sem snerta ungt fólk. Ungmennaráð UMFÍ er skipað níu ungmennum af öllu landinu. Ráðið leggur áherslu á jafna skiptingu kynja, aldursdreifingu og búsetu. Stærsta verkefni ráðsins ár hvert er ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði.


Meiri upplýsingar um Ungt fólk og lýðræði

Dagskrá ráðstefnunnar

 

Myndir frá ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem fram fór í Borgarnesi 2019.