Auður Inga sæmd gullmerki Fimleikasambands Íslands
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, var sæmd gullmerki Fimleikasambands Íslands á uppskeruhátíð þess í síðustu viku.
Í umfjöllun frá Fimleikasambandinu segir að Auður sé áreiðanleg og ráðagóð, víðsýn, sérstaklega hæf í mannlegum samskiptum og með djúpstæða þekkingu á málefnum íþróttahreyfingarinnar:
„Auður hefur alltaf látið gott af sér leiða hvar sem hún kemur, henni er mikið í mun að allir fái jöfn tækifæri til að láta ljós sitt skína, hver á sínum forsendum. Gott dæmi um það er frumkvöðlastarf hennar í þágu fimleika fyrir fatlaða á Íslandi. Eins og allt sem Auður tekur sér fyrir hendur, þá leggur hún hjarta sitt í verkið og hugur fylgir hönd.
Hún átti langan og farsælan fimleikaferil og hóf þjálfun 14 ára gömul í félaginu sínu, Gerplu. Það átti heldur eftir að bera ávöxt þegar fram liðu stundir. Dómaraferillinn hennar er einnig langur og farsæll, þar sem hún fór fyrir alþjóðlegum dómurum á Íslandi og annaðist menntun íslenskra hópfimleikadómara um árabil. Auður var mikil metin dómari og var endurtekið valin sem yfirdómari á alþjóðlegum mótum.
Haustið 1998 byrjaði hún í tækninefnd í hópfimleikum og sat í henni með hléum til ársins 2010, þar af í fjögur ár sem formaður nefndarinnar, ásamt því að sitja í Norrænu hópfimleikanefndinni. Hún flutti til Noregs í millitíðinni og starfaði þar einnig sem þjálfari, dómari og tækninefndarmeðlimur. Með þá reynslu og hennar hugarfar í farteskinu, þegar hún flutti aftur heim, hafði hún mikil áhrif til hins betra á uppbyggingu og keppnisfyrirkomulagi í hópfimleikum á Íslandi. Með þessu fyrirkomulagi, jókst breiddin, félögin á landsbyggðinni áttu auðveldara með að taka þátt og frá þeim tíma hófst sigurganga hópfimleika í Evrópu.
Auður starfaði sem framkvæmdastjóri Gerplu frá 2006 til ársins 2015 þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra UMFÍ. Í stjórnartíð Auðar hjá Gerplu, fjórfaldaðist iðkendafjöldi í félaginu, reksturinn tók stakkaskiptum og árangurinn í keppni hjá iðkendum lét ekki á sér standa. En alltaf var áherslan á að fimleikar eru fyrir alla og að allir æfi saman.”
Þá segir í umsögn Fimleikasambandsins um Auði Ingu að allir sem hafi unnið með henni viti að hverju þeir ganga, hún sé sanngjörn, sönn og lætur verkin tala, sé alltaf boðin og búin til að hjálpa og vera til staðar. Hún sé nefnilega þeim eiginleika gædd að henni er ekki sama.
„Henni er ekki sama um neinn, með jafnrétti í forgrunni leggur hún áherslu á að allir geti verið með. Hún veit hver hún er og hvað hún stendur fyrir, sem við í fimleikahreyfingunni erum svo þakklát fyrir.