Breytingar á dagskrá
Ákveðið hefur verið að gera þrjár breytingar á áður kynntri dagskrá Landsmóts UMFÍ 50+. Matar- og skemmtikvöldið, sem átti að vera á laugardagskvöldinu hefur verið fellt niður. Sömuleiðis fellur niður keppni í hestaíþróttum og skák.
Búið er að láta þátttakendur sem skráðu sig í greinarnar vita af breytingunni.
Mikið í boði
Nóg verður um að vera á mótinu í Stykkishólmi um helgina. Fjöldi fólks frá fimmtugu og upp úr tekur þátt í mótinu um helgina í fjölmörgum greinum. Þrátt fyrir heiti mótsins er opið fyrir þátttöku 18 ára og eldri í valdar greinar og getur fólk bæði keppt og prófað nýjar greinar.
Dagskrá mótsins er fjölbreytt og því ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Að auki eru Danskir dagar haldnir í Stykkishólmi á sama tíma og því verður gríðarlega mikið framboð af afþreyingu í bænum.
Á meðal greina í boði á mótinu eru:
Boccía og bridds, frjálsar íþróttir, golf, götuhlaup, hjólreiðar, körfubolti 3:3, pútt, ringó, stígvélakast og sund.
Að auki geta allir sem vilja spreytt sig í eftirfarandi:
Badminton, hlaupaskotfimi (biathlon), borðtennis, frisbígolf, hádegisjóga, petanque, pílukast og fleira.
Tveir aðgangsmiðar eru í boði: Hvítt armband er fyrir 50 ára og eldri og gildir í allar greinar. Rautt armband er fyrir 18 og eldri og gildir það í tilteknar greinar.