Búist við miklum fjölda á Landsmót UMFÍ 50+
„Við erum að ná utan um heildarskipulag mótsins keppnisgreinar liggja fyrir og sérgreinarstjórar eru klárir,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ. Hann fundaði í gær með framkvæmdanefnd Landsmóts UMFÍ 50+ sem fram fer í Stykkishólmi um Jónsmessuna dagana 23. – 25 júní næstkomandi og fer fram samhliða Dönskum dögum. Mótið er haldið í samstarfi við Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) og Sveitarfélagið Stykkishólm.
Á fundinum var teiknuð upp dagskrá mótsins og ýmsir viðburðir því tengdir. Ómar segir mjög gott að halda mótið á sama tíma og Danska daga. Ljóst er að gríðarlegur fjöldi verður í Stykkishólmi alla helgina og mikið framboð af mismunandi afþreyingu. Því gefist gott tækifæri til að kynna fyrir fólki ýmsa möguleika hreyfingar, nýjar greinar, nýjar útfærslur á eldri greinum og kosti þess að stunda íþróttir og reglulega hreyfingu með vinum og fjölskyldu.
Ómar kíkti á hóp eldri borgara í Stykkishólmi sem koma saman oft í viku og hreyfa sig saman í nokkrum greinum undir handleiðslu Gunnhildar Gunnarsdóttur. Myndina af hópnum má sjá hér að ofan.
Fjölbreytt dagskrá
Á Landsmóti UMFÍ 50+ í Stykkishólmi verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og ættu flestir í Stykkishólmi því að finna íþróttagrein við hæfi.
Hefðbundin keppni verður í flestum greinum en einnig verður boðið upp á greinar sem ekki verður keppt í en fólk á öllum aldri getur tekið þátt í og prófað og því upplagt fyrir gesti Danskra daga að koma og skemmta sér á mótinu, að sögn Ómars.
Landsmót UMFÍ 50+ er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri. Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag, allir geta tekið þátt og á sínum forsendum.
Greinarnar á mótinu eru: Badminton, boccia, borðtennis, bridds, frisbígolf, frjálsar íþróttir, golf, götuhlaup, hjólreiðar, körfubolti, pílukast, pútt, ringó, skák, stígvélakast og sund.
Mótssvæði
Mótið fer fram á tiltölulega litlu svæði sem er í hjarta bæjarins. Íþróttavöllur, golfvöllur, sundlaug og íþróttahús er allt í göngufæri. Íþróttamannvirkin eru í góðu ástandi og bjóða upp á ýmsa skemmtilega möguleika.
Mótsgjald
Þátttökugjald er aðeins 5.500 kr. og innifalið í því er þátttaka í öllum keppnisgreinum mótsins.
Allar ítarlegri upplýsingar um keppnisgreinar og úrslit er að finna á síðu Landsmóts UMFÍ 50+