27. júlí 2022
Búist við miklum umferðarþunga til Selfoss um verslunarmannahelgina
Lögreglan á Suðurlandi býst við miklum umferðarþunga í gegnum Selfoss um verslunarmannahelgina og segir að búast megi við miklum umferðartöfum ef ekið er Suðurlandsveg yfir Hellisheiði.
Fleiri leiðir eru að Selfossi en sú algengasta, sem er yfir Hellisheiði.
Lögreglan bendir ökumönnum á að dreifa umferðarþunganum á nokkrar aðrar leiðir:
- Ökumönnum sem ætla á Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi geta farið Þrengslaveg og Eyrarbakkaveg inn á Selfoss. Það er jafnvel hentugra fyrir þá sem eru með ferðavagna, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýrsi því tjaldstæðið er við Suðurhóla sem er fyrsta beygja til hægri inn á Selfoss þegar komið er frá Eyrarbakka.
- Hægt er líka að fara aðrar leiðir inn á Selfoss, svo sem fara Þrengslaveg – Eyrarbakkaveg – Gaulverjabæjarveg og þaðan inn í bæinn. Aðrar leiðir um Gaulverjabæjarveg eru líka mögulegar.
Lögreglan biðlar til ökumanna að skipuleggja ferðir sínar fyrirfram og sýna þolinmæði og biðlund ef umferðarteppur myndast.
Þá er nú um að gera og vera uppfull af Ungmennafélagsanda, því hann hressir og kætir, sérstaklega á leið á Unglingalandsmót.
Hér er kort af Selfossi sem sýnir bæði keppnisstaði og geysistórt tjaldsvæði við Suðurhóla.