Fara á efnissvæði
07. ágúst 2024

Dalamenn og Breiðfirðingar hlutu Fyrirmyndarbikar

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar tilkynnt var við slit Unglingalandsmóts UMFÍ að þátttakendur frá Ungmennasambandi Dalamanna og Norður - Breiðfirðinga (UDN) hafi hlotið Fyrirmyndarbikar UMFÍ. Bikarinn var afhentur í lok hvers Unglingalandsmóts UMFÍ til héraðs-sambands eða íþróttabandalags sem hefur sýnt fyrirmyndarframkomu innan sem utan keppni á mótinu.
 

Hamingjuleit í Borgarnesi

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ kallaði þátttakendur UDN upp á svið að loknum tónleikum á tjaldsvæði mótsins í Borgarnesi og afhenti þeim bikarinn til varðveislu í eitt ár.

Jóhann sagði í ávarpi sínu við slit mótsins að sýnt hafi verið fram á að einn af lyklum hamingjunnar felist í samveru fólks, heilbrigðum upplifunum og góðum minningum. Hamingjan felst líka í góðri hreyfingu, heilbrigðum lífsháttum og góðri heilsu.

„Ég vona að þið hafið fundið ykkar hamingju hér og farið heim með góðar minningar af Unglingalandsmóti UMFÍ í farteskinu og vonast til að sjá ykkur flest á næsta Unglingalandsmóti UMFÍ sem fer fram á Egilsstöðum að ári,“ sagði Jóhann Steinar.

Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi fór með eindæmum vel fram um verslunarmannahelgina og var það haldið í samstarfi við Ungmennasamband Borgfirðinga (UMSB) og sveitarfélagið Borgarbyggð. Um eitt þúsund þátttakendur á aldrinum 11 – 18 ára voru skráð til leiks í 18 íþróttagreinum og gátu auk þess tekið þátt í fjölda annarra viðburða með fjölskyldum sínum. Þar á meðal var fjöldi íþróttagreina eins og fótbolti, grasblak, frjálsar íþróttir, kökuskreytingar, borðtennis, blak og fleiri greinar. Tónleikar voru á tjaldsvæðinu á hverju kvöldi. Á lokakvöldinu komu fram GDRN, Júlí Heiðar og Orri Sveinn, sem héldu uppi trylltu stuði.

 

Allir vildu keppa í kökuskreytingum

Aðsókn í kökuskreytingakeppni sprengdi allar væntingar. Rúmlega 400 keppendur tóku þátt bæði í einstaklings- og liðakeppni. Mikill fjöldi foreldra, forráðafólks og systkina fylgdist spennt með. 

 

Sveitarstjórinn dæmdi í grashandbolta

Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða tók þátt í Unglingalandsmótinu víða úr Borgarfirði. Sjálfur sveitarstjórinn, Stefán Broddi Guðjónsson, lét ekki sitt eftir liggja og dæmdi leiki í grashandbolta af mikilli fagmennsku og ungmennafélagsanda.

Margir mótsgesta fóru af stað heim á leið fljótlega eftir að síðustu tónleikum mótsins lauk enda ekki hagstæð veðurspá fyrir öll þau hjólhýsi og búnað sem fólk gisti í.

Mikil spenna er fyrir Unglingalandsmóti UMFÍ sem verður á Egilsstöðum á næsta ári.