Fara á efnissvæði
23. febrúar 2021

Diddi í Val: Ánægður að sjá áhorfendur aftur

„Það er frábært að fá áhorfendur á leiki aftur. Það var kominn tími á það,‟ segir Sigurður K. Pálsson, framkvæmdastjóri knattspyrnufélagsins Vals í Reykjavík. Hann bætir við að félögin séu fljót að aðlaga sig og muni án nokkurs vafa geta uppfyllt öll skilyrði.

Áhorfendur hafa ekki verið leyfðir á íþróttaviðburðum síðan í október á síðasta ári.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnt í morgun tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum vegna COVID-faraldursins. Samkvæmt þeim mega allt að 200 manns horfa á íþróttaviðburði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, skíðasvæði og sundstaðir mega taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda og allt að 150 nemendur verða heimilaðir í hverju rými á öllum skólastigum. Fjöldatakmarkanir fara úr 20 manns í 50.

Breytingarnar taka gildi á morgun, miðvikudaginn 24. febrúar.

„Félögin munu standa sína plikt,‟ segir Sigurður.

 

Valur er aðildarfélag Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR). ÍBR er sambandsaðili UMFÍ. Sambandsaðilar UMFÍ eru 28 talsins. Þeir skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.

Sjá einnig: 

200 áhorfendur leyfðir á íþróttaviðburðum