Ef barnið þitt vill fara á Unglingalandsmót þá fara foreldrarnir með
„Ég er glöð og ánægð með skráninguna hjá HSK. Ég átti ekki von á þessum fjölda. Við erum að leggja í hann og sumar fjölskyldur eru lagðar af stað héðan austur á Egilsstaði,“ segir Guðrún Tryggvadóttir, formaður landsmótsnefndar HSK og staðgengill framkvæmdastjóra HSK.
Í gærkvöldi voru 140 ungmenni á aldrinum 11-18 ára frá HSK skráð á Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Þetta er næstum þrisvar sinnum fleiri þátttakendur en komu frá HSK til Egilsstaða þegar mótið var haldið þar árið 2011.
Spurð að því hver ástæðan sé fyrir svo góðri þátttöku svarar Guðrún:
„Við erum landsbyggðarlið og látum ekki vegalengdir stöðva okkur. En viðhorfið hér er það að ef barnið þitt vill fara á Unglingalandsmót þá fara foreldrarnir með. Það skiptir engu hvort barnið er skráð í eina grein eða fleiri. Ein grein er nóg til að fara af stað.“
Dæmi eru um að börn séu skráð í allt upp undir 14 greinar af þeim 24 sem í boði eru á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum. Systkini úr Skagafirði eru sem dæmi skráð í samtals 22 greinar. Tvíburabræðurnir Einar og Helgi keppa líka í mörgum mismunandi greinum. Þeir eru skráðir í fótbolta, körfubolta, frisbígolf, bogfimi, fjallahjólreiðar, strandblak og í liðakeppni í kökuskreytingum.
Lesa grein um systkinin úr Skagafirði.
Lesa viðtal við Einar um greinarnar sjö sem hann er skráður í.
Guðrún fer á mótið með 15 ára syni sínum. Sá er skráður í tvær greinar.
Guðrún bætir við að ungmennafélagsandinn hafi ávallt verið góður innan HSK og margir spenntir fyrir mótum á borð við Unglingalandsmóti UMFÍ.
Hún bendir á að HSK geri líka vel við þá sem skrá sig á Unglingalandsmót UMFÍ. Allir þeir sem fara fá gefins treyju merkta HSK.
Hvað er í boði?
Unglingalandsmót UMFÍ er fyrir börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára.
Í boði eru fjölbreyttar keppnisgreinar: boccía, bogfimi, UÍA Þrekmót, fimleikalíf, fjallahjólreiðar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, hestaíþróttir, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, ólympískar lyftingar, rathlaup, skák og skotfimi, stafsetning, upplestur og sund.
Fötluðum einstaklingum er boðið að keppa í frjálsíþróttum og sundi.
Að auki er nóg í boði fyrir alla fjölskylduna.Yngri börnin fá að sjálfsögðu líka að spreyta sig við ýmsar íþróttir, fengið kennslu í mörgum og farið á tónleika á kvöldin.
Það kostar aðeins 7.000 krónur að skrá sig á Unglingalandsmót og fyrir það hægt að keppa í eins mörgum greinum og viðkomandi vill keppa í.
Skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ lýkur á miðnætti 1. ágúst.
Skrá á Unglingalandsmót UMFÍ