Er í alvörunni hægt að keppa í kökuskreytingum?
„Er hægt að keppa í kökuskreytingum? Í alvöru talað? Ég væri til í að sjá þetta!“ hrópaði útvarpsmaðurinn Ingi Þór Ingibergsson, þegar hann missti sig í viðtali við Eddu Jóhannesdóttur, 13 ára úr Seljahverfinu og keppanda í kökuskreytingum og badmintoni. Ingi Þór stýrir útvarpsþættinum Næturvaktinni á Rás tvö.
Edda var með fjölskyldu sinni í bíl að borða ís frá Huppu og hlusta á Rás 2 í gær þegar Ingi Þór bauð hlustendum að hringja inn og segja frá verslunarmannahelginni. Edda hringdi og sagði hlustendum frá því að hún væri á Unglingalandsmótinu í Borgarnesi og hefði lent í öðru sæti í badmintoni. Hún ætli svo að keppa í kökuskreytingum í dag.
Edda er ekki eini keppandinn í fjölskyldunni því bróðir hennar er skráður í fjölda greina.
Ingi Þór fór á flug og virtist varla trúa sínum eigin eyrum þegar Edda sagði honum að hún væri búin að teikna skreytingu fyrir kökuna og væri þemað Ísland.
„Snýst þetta ekki bara um að nota hugmyndaflugið og .. Ég meina: Hvernig virkar þetta?“ spurði Ingi Þór og fór næst að velta fyrir sér bakstrinum, kremum og skrauti á kökuna. Edda sagði honum að botna fái keppendur á staðnum og lýsti keppninni í þaula. Þemað í kökuskreytingakeppninni er Ísland.
Keppni í kökuskreytingum er gríðarlega vinsæl og pakkfullt í viðburðinn, sem fer fram í Menntaskóla Borgarfjarðar í Hjálmakletti. Yfir 400 þátttakendur voru skráðir til leiks.
Ingi Þór bauð Eddu óskalag og valdi hún Í ljósum logum með Frikka Dór. Hann kom einmitt fram á setningu Unglingalandsmótsins og í skemmtitjaldinu með Jóni Jónssyni á föstudagskvöldi.
Hægt er að hlusta á viðtal Inga Þórs við Eddu hér að neðan. Spóla þarf inn á viðtalið þegar 30 mínútur eru liðnar af þættinum.