Fara á efnissvæði
08. júlí 2024

Erla Björk er nýr formaður HSS

Erla Björk Jónsdóttir var kosin formaður Héraðssambands Strandamanna (HSS) á ársþingi sambandsins fyrir nokkru. Hún tók við formannsembættinu af Jóhanni Birni Arngrímssyni, sem gaf ekki kost á sér áfram en gaf engu að síður kost á sér sem varaformaður.  

Nokkrar aðrar breytingar urðu á stjórn sambandsins því Hildur Aradóttir var kosin gjaldkeri í stað Ragnars Bragasonar sem fór úr stjórn og kom Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir inn ný í stjórn sem ritari. Óskar Torfason, sem áður var varaformaður, tók sæti meðstjórnanda. Júlíus Jónsson og Sveinn Ingimundur Pálsson héldu áfram sem varamenn í stjórn en Ingólfur Árni Haraldsson og Ísabella B. Petersen komu ný inn.

Þrátt fyrir nokkrar breytingar á stjórn var þingið nokkuð hefðbundið, ársreikningur lagður fram, farið yfir skýrslu stjórnar og breytingatillögur kynntar og voru þær samþykktar. Þar á meðal var samþykkt að leggja niður sérsjóð HSS vegna breytinga á lottótekjum til sambandsins og var samþykkt auk þess að breyttar lottótekjur HSS til aðildarfélaga verði endurskoðaðar á næsta ári.

Þá var lagt til að haldið verði upp á 80 ára afmæli stofnunar HSS í haust.  

Tuttugu og einn fulltrúi frá sex aðildarfélögum sótti þingið. Tekið er fram í umfjöllun HSS að gert hafi leiðindaveður og félagar frá Leifi heppna í Árneshreppi hafi ekki komist vegna veðurs. 

Íþróttamaður ársins hjá HSS árið 2023 var útnefnd Árný Helga Birkisdóttir fyrir góðan árangur á skíðum og efnilegasti íþróttamaður HSS var Jökull Ingimundur Hlynsson, fyrir góðan árangur í frjálsum íþróttum og gönguskíðum. 

Hvatningarbikar HSS fengu Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir og eldri borgarar fyrir dugnað og elju og mátti greina aukningu hjá þessum hópi og gott starf.

Á myndinni hér að ofan má sjá Jóhann Björn afhenda Ragnheiði Birnu Hvatningarbikar HSS.

 

Fleiri fréttir af þingi HSS má lesa á Facebook-síðu HSS.