Erla er nýr varaformaður USAH
„Þingið gekk mjög hjá okkur. Við erum með svo vanan þingforseta sem er fastur fyrir og gefur okkur ekkert færi á útúrdúrum. Þingið var þess vegna keyrt í gegn á þremur tímum eins og í fyrra,“ segir Snjólaug Jónsdóttir, formaður Ungmennasambands Austur-Húnvetninga (USAH). Þing sambandsins fór fram í Húnaskóla um síðustu helgi.
Næstum fullt hús var á þinginu sem er sambærilegt og síðustu ár. Snjólaug þakkar það þingforsetanum enn og aftur, sem leyfir enga útúrdúra frá auglýstri dagskrá.
Þingforsetinn var Ingibergur Guðmundsson, sem stýrt hefur mörgum þingum USAH í gegnum árin. Hann lýsti því yfir að þetta yrði hans síðasta þing. Snjólaug segir mikla eftirsjá af Ingibergi sem sé reynslubolti í fundarstjórn.
Hún segir það verða erfitt að finna eftirmann hans en stjórnin hafi árið til að finna hann.
Golfklúbburinn heiðraður
Af 36 þingfulltrúum frá aðildarfélögum mættu 35. Átta tillögur voru lagðar fyrir þingið og voru þær allar samþykktar með smávægilegum breytingum.
Gunnar Þór Gestsson, varaformaður UMFÍ, var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ, ásamt Viðari Sigurjónssyni frá ÍSÍ. Gunnar hélt ávarp á þinginu og ræddi þar um svæðastöðvar íþróttahreyfingarinnar ásamt því að hvetja til þátttöku á Unglingalandsmóti UMFÍ, Landsmóti UMFÍ 50+ og fleiri viðburðum UMFÍ.
Snjólaug var kosin áfram sem formaður USAH. Eyþór Franzson Wechner gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu sem varaformaður USAH og tók Brynhildur Erla Jakobsdóttir við sæti hans.
Hvatningarverðlaun USAH fóru til Golfklúbbsins GÓS fyrir öflugt kvennastarf.
Nýkjörin stjórn USAH
Snjólaug M. Jónsdóttir, formaður
Brynhildur Erla Jakobsdóttir, varaformaður
Ingvar Björnsson, gjaldkeri
Baldur Magnússon, ritari
Guðmann Jónasson, meðstjórnandi