Fara á efnissvæði
05. desember 2024

Eva Rut: Gott að virkja styrkleika fólks

Eva Rut Vilhjálmsdóttir starfar í Íþróttamiðstöðinni í Garði ásamt því að þjálfa 6. og 7. flokk stúlkna í fótbolta. Helstu áhugamál Evu eru fótbolti, ferðalög og að verja tíma með fjölskyldu sinni. Hún hefur lengi verið öflugur sjálfboðaliði hjá Knattspyrnufélaginu Víði.

Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í íþróttahreyfingunni hér á landi.

Sjálfboðaliðar vinna óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Framlag þeirra er ómetanlegt en því miður oft og tíðum ekki metið að verðleikum. En hvað er það sem knýr sjálfboðaliða áfram að gefa af sér án þess að ætlast til þess að fá neitt í staðinn?

Við tókum á tal harðduglega sjálfboðaliða vítt og breytt um landið og fengum innsýn inn í þeirra starf. Hér fáum við að heyra reynslu þeirra af sjálfboðaliðastarfi og hver hvati þeirra er til að halda áfram að sinna starfi sínu sem sjálfboðaliðar. 

Hvernig sjálfboðaliðastarfi sinnir þú helst? „Í dag er ég gjaldkeri hjá knattspyrnufélaginu Víðir í Garði og hef setið í stjórn félagsins síðan árið 2010. Ég held að ég hafi komið að öllum þáttum félagsins á einn eða annan hátt, allt frá því að vera meðstjórnandi, ritari og nú gjaldkeri. Ég hef tekið þátt í ýmsum störfum innan félagsins og einnig haldið utan um barna og unglingastarfið sem er í samstarfi við Reynir og í efstu flokkunum í samstarfi við Keflavík og Njarðvík. Mín helstu verkefni eru til dæmis ráðning starfsmanna, þjálfara, semja við leikmenn, finna dómara í yngri flokkum, tengiliður við frístundarrútuna og þeirra sem koma að barnastarfinu, halda utan um Víðavangshlaup á Sumardaginn fyrsta, sjá um kaup á tækjum, áhöldum og búningum fyrir félagið og að safna styrkjum til þess að halda félaginu gangandi. Einnig þarf að fjárafla til þess að halda íþróttafélögunum uppi en ég ásamt stjórnarmeðlimum höldum ýmsa viðburði svo sem skötuveislu, ýmis styrktarkvöld, fjölskyldu-, páska- og partý bingó, umsjón með 700 manna Þorrablóti Suðurnesjamanna í Garðinum og margt fleira. Einnig hef ég komið af stað fótboltanámskeiðum sem eru haldin hjá okkur. Þar sem að íþróttir sameina samfélagið svo mikið höfum við einnig verið til staðar og aðstoðað félagsmenn okkar þegar að þeir hafa þurft á stuðningi að halda. Þannig má með sanni segja að sjálfboðaverkefnin séu fjölmörg og ég er með nefið í þeim öllum.“

Hvers vegna ákvaðst þú að gerast sjálfboðaliði? „Ég hef alltaf brunnið mikið fyrir samfélagið mitt í Garðinum og reynt að leggja mitt af mörkum til þess að efla það. Fótboltinn hefur átt hug minn lengi og verið stór partur af mínu lífi frá því að ég var smábarn og hjartað mitt er í Víðir í Garði. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að gera gagn í samfélaginu og gleðja aðra.“

Hvað er það sem drífur þig áfram sem sjálfboðaliði? „Það er klárlega það að mér finnst þetta fyrst og fremst gaman, maður uppsker það sem maður sáir, það eflast vináttubönd og fólk sýnir manni mikið þakklæti. Stuðningsmenn og styrktaraðilar standa þétt við bakið á okkur og það gefur mér mikið til baka allt þetta þakklæti sem við fáum.“

Getur þú lýst eftirminnilegri upplifun sem sjálfboðaliði? „Já það hafa komið móment þar sem ég fæ ryk í augun og gæsahúð þegar að öll vinnan sem liggur á bakvið, til dæmis eitt stykki 700 manna þorrablót, hefur skilað sér og ég sé hvað allir eru hafa gaman saman. Það er þó eitt sem stendur mest uppúr en það er þegar að Víðismenn unnu fyrsta Fótbolti.net bikarinn á Laugardalsvelli. Öll umgjörðin var glæsileg og stemmningin og samtakamátturinn var svo bersýnilgur að þessi dagur verður ógleymanlegur í minni mínu.“

Hverjar eru áskoranir í starfi sjálfboðaliða? „Það er alltaf erfiðara að fá fólk til þess að festa sig í stjórnum vegna anna og vilja síður taka ábyrgð en það þarf að færa fórnir og sum verkefnin geta verið tímafrek. Við þurfum að vera sífellt á tánum og tilbúin að endurmeta og bæta starfið okkar, takast á við nýjar áskoranir í samfélaginu, mæta þörfum flestra og vera lausnamiðuð og tilbúin þegar að á reynir. Til dæmis eins og í Covid þegar að við þurftum að leggja allt okkar í að halda barnastarfinu eins mikið gangandi og við máttum ásamt því að finna nýjar fjáröflunarleiðir eins og að halda rafrænt þorrablót.“

Hver er ávinningur þess að vera sjálfboðaliði? „Þegar að ég veit og finn að við séum að gera góða hluti fyrir samfélagið sem er að njóta krafta manns. Einnig drífur samvinna og góð vinatengsl sem myndast í gegnum starfið mig áfram, auk þess hef ég öðlast meiri þekkingu og skilning í á starfinu sjálfu og sé hversu mikilvæg störf sjálfboðaliða eru.“

Þín skilaboð til annarra sem hafa áhuga á að sinna sjálfboðaliðastarfi? „Komdu með! Hafðu samband við það félag sem þig langar til þess að starfa í. Allar hendur eru vel þegnar og þú munt græða meira á því að taka þátt heldur en að sitja hjá. Það er hellingur af verkefnum sem félög þurfa að tækla og þú ert klárlega með styrkleika sem þitt félag getur notið góðs af.“

Þín ráð til annarra félaga til þess að fjölga sjálfboðaliðum? „Fyrst og fremst að bjóða alla velkomna sem vilja taka þátt í starfinu. Einnig þarf að vera með augun opin og finna verkefni sem hentar styrkleika fólks. Engu að síður er mikilvægt að hafa gleðina við völd og jákvæðni að leiðarljósi, þá fáum við fólk til þess að starfa með okkur.“