Fjöldi viðurkenninga á ársþingi UMSK
„Við sem þekkjum Guðmund sjáum að hann hefur setið í mörgum gjaldkerastólum, verið endurskoðandi og skoðunarmaður reikninga. Það á því vel við að kalla hann gjaldkera Íslands,“ sagði Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, þegar hann tilkynningi á ársþingi UMSK síðdegis í gær að Guðmundi G. Sigurbergssyni yrði veit Gullmerki UMFÍ fyrir störf í þágu ungmennafélagshreyfingarinnar.
Guðmundur er formaður UMSK og hefur hann gegnt fjölmörgum störfum fyrir ungmennafélagshreyfinguna, sérstaklega UMSK og aðildarfélög þess. M.a. verið formaður og gjaldkeri Breiðabliks í mörg ár. Hann hefur setið í stjórn UMFÍ frá árinu 2015 og er gjaldkeri stjórnar. Hann á jafnframt sæti í framkvæmdastjórn, fjárhags- og fasteignanefnd og í vinnuhópi um íþróttahéruð og lottóreglur.
Þing UMSK var vel sótt og afhenti Jóhann Steinar fjórum sjálfboðaliðum sambandsins starfsmerki UMFÍ. Þau fengu Bjarni Torfi Álfþórsson frá Gróttu, Geirarður Long frá Aftureldingu, Halla Garðarsdóttir frá Breiðabliki og Sesselja Hannele Jarvela frá Gróttu á Seltjarnarnesi.
Á þinginu voru fjölmargar heiðranir á vegum UMSK, svo sem Íþróttakarl og Íþróttakona ársins og lið ársins, sem meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu landaði.
Á meðal þeirra sem hlutu viðurkenningar voru Lárus B. Lárusson, sem situr bæði í stjórnum UMSK og UMFÍ en hann var sæmdur gullmerki ÍSÍ.
Nánar um þau sem hlutu starfsmerki UMFÍ
Bjarni Torfi Álfþórsson hefur í tvígang verið formaður aðalstjórnar Gróttu í sjö ár auk þess að vera virkur í margskonar öðru félagsstarfi hjá félaginu í yfir 30 ár. Hann hefur þjálfað yngri flokka bæði í knattspyrnu og handknattleik hjá Gróttu.
Bjarni Torfi er gullmerkishafi félagsins og auk þess handhafi starfsmerkis UMSK. Bjarni hefur verið alla tíð verið virkur í sjálfboðastörfum fyrir félagið og síðustu ár staðið vaktina við ritarborðið á handboltaleikjum meistaraflokka félagsins.
Geirarður Long
Geirarður Long er búinn að vera í aðalstjórn Aftureldingar síðan 2013 og fram að því alltaf á kantinum og tilbúinn að gefa af sér svo lengi sem menn muna. Ég leitaði til nokkura samstarfsfélaga til þess að fá umsögn um hann og það er mikill samhljómur í þeim og ég held það sé bara fallegt að láta þær fylgja eins og þær komu: • Einstakt ljúfmenni, sem mætir á svo til ALLA heimaleiki félagsins hjá ÖLLUM deildum og myndi ganga (hjóla) veröldina á enda fyrir félagið sitt.
Það er enginn með stærra Aftureldingarhjarta en Geiri. Í marga áratugi hefur hann ekki bara gefið vinnu sína í þágu félagsins, heldur líka mætt á alls konar leiki og mót, hjá hinum og þessum deildum og hvatt iðkendur til dáða. Það liggur við að maður verði bara pínu óöruggur ef Geiri er ekki mættur á einhvern viðburð hjá félaginu.
Hann er duglegur að hrósa sjálfboðaliðum og starfsfólki og mætir óþreytandi á viðburði.
Geirarður hefur óbilandi áhuga á öllu starfinu og með hugsjón og hjarta á réttum stað.
Halla Garðarsdóttir
Halla Garðarsdóttir hefur starfað lengi fyrir Breiðablik eða rúm 20 ár. Fyrst innan barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar síðan í stjórn körfuknattleiksdeildar og loks í aðalstjórn þar sem hún sat í fjölda ára. Halla er bóngóð og alltaf til í að leggja lið ef hún getur. Hún er glaðvær og atorkusöm og lagin við að hrífa fólk með sér í verkefnum. Hún leiddi vinnu við skipulagningu og framkvæmd 70 ára afmælis Breiðabliks. Það tókst með eindæmum vel og fékk félagið mikið lof fyrir. Halla hefur unnið ómetanlegt starf fyrir félagið sitt. Halla hefur setið í stjórn UMSK síðan 2018.
Sesselja Hannele Jarvela, Gróttu
Sesselja Hannele Jarvela er einn reyndasti fimleikaþjálfari landsins, hún byrjaði að þjálfa hjá Gerplu árið 1987 og var þjálfaði þar til 1995 þegar hún fór Íþróttakennaraskólann á Laugavatni.
Meðan hún nam á Laugavatni þjálfaði hún á Selfossi og fór til KR þegar námi lauk. Hún hefur þjálfað fimleika hjá Gróttu frá 2001 og verið yfirþjálfari áhaldafimleika frá 2006 þannig að hún hefur starfað hjá Gróttu samfellt í 22 ár. Hún hlaut hlaut viðurkenningu sem þjálfari ársins 2020 hjá fimleikasambandi Íslands en hún hefur komið að þjálfun landsliða fimleikasambandsins um árabil auk þess að sitja í fræðsluefnd sambandsins. Það má með sanni segja að Sesselja sé hokin að reynslu. Hún hefur unnið ómetanlegt starf fyrir Gróttu.