Fjölskyldan öll á Allir með-leikunum
„Við erum himinlifandi. Það var virkilega frábært að fá tækifæri til að kynnast fleiri íþróttagreinum, sjá hvað er í boði og hægt að gera. Þetta var virkilega flott,“ segir Guðfinnur Arnar Kristmannsson, faðir Stefáníu, sem er 15 ára og tók þátt í Allir með-leikunum þegar þeir voru haldnir í fyrsta sinn í gær.
Um 120 þátttakendur voru skráðir til leiks á viðburðinum. Dagurinn hófst klukkan 10 í Laugardalshöllinni þar sem frjálsar íþróttir voru í boði ásamt körfubolta, fótbolta og handbolta. Eftir hádegishlé leiddi mikill og langur dreki hópinn yfir í Ármannsheimilið þar sem þátttakendur reyndu við sig í allskonar tólum og tækjum í fimleikasalnum. Viðburðinum lauk svo með diskóið um miðjan dag.
Stefanía sjálf er heilmikil íþróttamanneskja og æfir bæði körfubolta hjá Haukum í Hafnarfirði og sund. Á Allir með-leikunum prófaði hún aðrar greinar og allri annarri skemmtun.
Verkefnið Allir með er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og Íþróttasambands fatlaðra. Það er til þriggja ára og er styrkt af þremur ráðuneytum. Mennta- og barnamálaráðuneytinu, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og Heilbrigðisráðuneytinu. Ráðherrar, þingmenn og frambjóðendur voru viðstödd setningu leikanna.
Markmið verkefnisins Allir með er að fjölga tækifærum iðkenda með fötlun í íþróttum í skipulögðu íþróttastarfi.
Stefnt er að því að Allir með-leikarnir verði árlegur viðburður og einn af þremur viðburðum undir merkjum Allir með-verkefnisins fyrir iðkendur með fötlun á Íslandi. Hinir eru Íslandsleikarnir, sem fóru í fyrsta sinn fram á Akureyri í vor og viðburður á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer um verslunarmannahelgi ár hvert.
Leikar fyrir alla
„Við erum rosalega ánægð. Dagurinn var svo frábær. Allir með-leikarnir eru nákvæmlega það sem þeir þurfa að vera: Fyrir alla,“ segir Sólný Pálsdóttir, móðir Hilmis Sveinssonar. Fjölskyldan tók öll þátt í Allir með-leikunum. Hilmir prófaði þarna frjálsar íþróttir í fyrsta sinn og vinur hann knattspyrnu.
Sólný segir viðburð eins og þennan mikilvægan fyrir alla fjölskylduna, ekki síður fyrir foreldra barna með fötlun en börnin sjálf.
„Það er oft sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn. En það þarf borg til að ala upp barn með fötlun. Þess vegna skiptir svo miklu máli að foreldrar barna með fötlun tengist og vinni með íþróttahreyfingunni,“ segir hún og leggur áherslu að lykilatriði að vel takist til séu tengsl iðkenda, foreldra, skipuleggjenda og þjálfara. Ekki sé nóg að foreldrar séu virkir heldur verði íþróttafélög að sýna að þau séu velkomin, bæði iðkendur og foreldrar þeirra.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá Allir með-leikunum. Miklu fleiri myndir má sjá á myndasafni á Facebook: