Fara á efnissvæði
08. júlí 2024

Fjölskyldan skemmtir sér á Unglingalandsmóti

Mikið er lagt upp úr því að fjölskyldan hafi gaman á Unglingalandsmóti UMFÍ og margt í boði fyrir systkini þátttakenda, að sögn Bjarneyjar Lárudóttur Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB).

Mótið verður haldið í Borgarnesi um verslunarmannahelgina og má búast við heljarinnar fjöri þegar þúsundir mótsgesta skemmta sér í íþróttum á daginn og allskonar skemmtun og afþreyingu á kvöldin. Mótið er fjölskylduhátíð þar sem 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum yfir verslunarmannahelgina.

Rætt var við Bjarneyju um mótið í Skessuhorni á dögunum. 

Bjarney segir undirbúning í fullum gangi til að tryggja að allt verði klárt þegar mótið hefst.  
Búist er við um eitt þúsund þátttakendum. Bjarney bendir á að þeim fylgi yfirleitt tveir til þrír fjölskyldumeðlimir og er vel hugsað um alla.

Aðeins kostar 9.400 krónur á mótið og er innifalið í því aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna.

 

Margt í boði

Þau sem hafa komið á Unglingalandsmót UMFÍ vita að það er óvenjulegt og í boði ýmsar skemmtilegar greinar. 

„Þetta er sambland af hefðbundnum og óhefðbundnum greinum, það er þetta klassíska; fótbolti, handbolti, körfubolti og svo erum við með grasblak og grashandbolta, frjálsar og sund, upplestur, stafsetningu og kökubakstur sem hefur slegið þvílíkt í gegn síðustu árin,“ segir Bjarney og heldur áfram: „Við verðum einnig með alls kyns kynningar, eins og bog fimi, pílu og borðtennis. Þannig að já, þetta er bara ótrúlega skemmtilegt,“ segir Bjarney. 

Unglingalandsmótið er eins og áður sagði fyrir börn og ungmenni af öllu landinu. Ekki er skilyrði að vera skráð í ungmenna- eða íþróttafélag og mega öll börn og ungmenni á aldrinum 11-18 ára taka þátt á mótinu. 

Ekki þarf að vera í liði til að skrá sig á mótið. Þau sem ekki eru í liði geta skráð sig sem stakan þátttakanda og eru þá sett í UMFÍ-lið.

 

Komið til móts við alla þátttakendur

Bjarney segir öllum börnum velkomið að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ. 

„Börn með fatlanir hafa og geta tekið þátt í frjálsum íþróttum og sundi. Eins geta þau tekið þátt í fjölmörgum öðrum greinum sem þau treysta sér í, við reynum að koma til móts við þá einstaklinga eins og mögulegt er. Einnig er verið að skoða með sérstakt körfuboltamót fyrir þau.“

 

Fjölskyldan saman

Aðstandendur Unglingalands móts leggja mikið upp úr því að öll fjölskyldan hafi gaman. „Mótið sjálft er fyrir 11-18 ára en það verður líka eitthvað í boði fyrir yngri systkini, þannig að þau geti leikið sér. Það verður eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa.“ Á tjaldsvæðinu verður til að mynda partítjald þar sem gestir koma saman á kvöldin og skemmta sér en í framkvæmdanefnd situr full trúi Ungmennaráðs og sér, ásamt öðrum, um afþreyingardagskrána og er svo gott sem búið að bóka tónlistarfólk. „Þetta verður bara rosa skemmtileg fjölskylduhátíð.“

 

Margir sjálfboðaliðar

Bjarney hefur unnið að skipulagi og undirbúningi undanfarna mánuði og er að eigin sögn mjög spennt að sjá afrakstur vinnunnar. „En þetta er alveg heljarinnar batterí, það er margt sem þarf að ganga upp,“ segir hún og bætir við að hún sé hæstánægð með skipulags- og framkvæmdateymið sem starfi með henni. Þau séu öll sem eitt með puttann á púlsinum um að framkvæma hlutina enda framkvæmdanefndin öflug. 

Bjarney segir einnig marga sjálfboðaliða koma að framkvæmdinni og að Borgfirðingar séu einstaklega heppin með sitt fólk. 

„Við erum rosalega vel sett af sjálfboðaliðum hérna, það er alveg magnað. Fólk sem er með stórt UMSB hjarta og hefur gert þetta áður – hokið af reynslu í mótahaldi og gengur beint í verkin.“ 

Nú eru örfáar vikur til stefnu en miðað við gang mála stefnir allt í fyrirmyndar skemmtun og heilbrigða samveru í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. 

 

Allar upplýsingar og á skráning á Unglingalandsmót UMFÍ

Mikinn fjölda öflugra sjálfboðaliða þarf til að umfangsmiklir viðburðir eins og Unglingalandsmót UMFÍ gangi upp. Af þeim sökum leitar UMSB til fólks sem hefur áhuga á að sinna ýmsum verkefnum. Með hverjum klukkutíma sem unninn er styrkir sjálfboðaliði sitt samband, félag eða deild.

Viltu vera sjálfboðaliði á Unglingalandsmóti UMFÍ? Endilega skráðu þig í gegnum hlekkinn hér fyrir neðan og við finnum hlutverk við hæfi!