Fara á efnissvæði
29. ágúst 2023

Fjör í Forsetahlaupi UMFÍ

„Það vita allir vel af Forsetahlaupinu og við höfum hvatt börnin og fólk í hlaupahópum til að koma og taka þátt,“ segir Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri héraðssambandsins Hrafna-Flóka. Forsetahlaup UMFÍ fer fram á Patreksfirði laugardaginn 2. september.

Ásgeir, sem stendur á myndinni við upphafsstað hlaupsins, segir planið að hafa mikið húllumhæ í kringum Forsetahlaupið en það muni ráðast af veðri. Stefnt er á að þátttakendur og áhorfendur geti skellt sér í ýmisleg skemmtilegheit, svo sem  froðufótbolta sem hefur notið mikilla vinsælda á Patreksfirði síðastliðin tíu ár eða svo.

Þetta er annað skiptið sem Forsetahlaupið er haldið. Í fyrra var það í samstarfi við Ungmennasamband Kjalarnesþings og Ungmennafélag Álftanes og haldið á Álftanesi. Nú er það haldið með Hrafna-Flóka, sambandsaðila UMFÍ. Sambandssvæði Hrafna-Flóka nær yfir vestur-Barðastrandasýsluna og eru innan þess íþróttafélög á Barðaströnd, Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði.

 

Forsetinn sprettir úr spori

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verður í heimsókn á Vestfjörðum um helgina og mun hann taka þátt í hlaupinu.

Viðburðurinn er fyrir alla fjölskylduna og eða einstaklinga þar sem tíminn skiptir ekki máli heldur er áhersla á gleði, hreyfingu og samveru - eða hinn sanna ungmennafélagsanda!

Í Forsetahlaupi UMFÍ velur hver þátttakandi sína hlaupavegalengd og hleypur hann á sínum forsendum. Engin tímataka er á viðburðinum.

Þrjár vegalengdir verða í boði: 1 km, 2,5 km og 5 km.

Forsetahlaupið hefst við íþróttamiðstöðina á Patreksfirði og verður hlaupinn einfaldur hringur í bænum. Í stysta hlaupinu eru farnir 500 m frá íþróttamiðstöðinni og snúið við á Aðalstræti. Aðrir hlauparar í hinum hlaupunum fara út Aðalstrætið, beygja niður á Strandgötuna og fara á gatnamótum við Þórsgötuna aftur inn á Aðalstrætið. Þátttakendur í 2,5 km hlaupi enda við íþróttamiðstöðina en þeir í 5 km hlaupi fara tvo hringi.

 

Frítt fyrir yngri þátttakendur

Skráning er hér á hlaup.is. Þátttökugjald er 2.000 kr. fyrir 18 ára og eldri. Frítt er fyrir yngri þátttakendur.

Skrá í Forsetahlaup 

Hægt verður að nálgast þátttökuarmbönd í íþróttamiðstöðinni á Patreksfirði á milli kl. 18:00 - 19:00 föstudaginn 1. september og frá kl. 09:00 á laugardagsmorgninum 2. september. 

Forsetahlaupið hefst við íþróttamiðstöðiina klukkan 10:00 og mun viðburðurinn var í klukkustund.

 

Hér að neðan má sjá kort af hlaupaleiðinni og myndir úr fyrsta Forsetahlaupinu, sem fram fór á Álftanesi í fyrra.