Flemming og Guðjón heiðraðir með gullmerki UMFÍ
Þeir Flemming Jessen og Guðjón Guðmundsson voru á sambandsþingi Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) báðir heiðraðir fyrir störf sín fyrir ungmennafélagshreyfinguna með gullmerki UMFÍ. Sigríður Bjarnadóttir og Páll Snær Brynjarsson fengu á sama tíma starfsmerki UMFÍ fyrir störf sín.
Hallbera Eiríksdóttir, sem situr í stjórn UMFÍ, var gestur sambandsþings UMSB og afhenti hún heiðursmerkin og viðurkenningar ásamt því að flytja ávarp.
Flemming Jessen
Flemming Jessen er þessi öflugi og duglegi sjálfboðaliði sem hefur helgað líf sitt félagsstörfum nánast allt sitt líf. Kraftur og dugnaður hafa einkennt störf hans hvort sem hann er að leiðbeina börnum eða fullorðnum. Á árunum 1989 – 1991 var Flemming í varastjórn UMFÍ árin 1989 – 1991og kom þar að mörgum góðum verkefnum. Eitt verkefna Flemming í seinni tíð eru Landsmót UMFÍ 50+. Flemming hefur komið að öllum mótunum fram til þessa sem verkefnastjóri eða sem sjálfboðaliði. Hann hefur verið órjúfanlegur hluti mótanna með því að koma að skipulagningu, kynningu og með því að hvetja fólk til þátttöku. Flemming hefur farið margar ferðirnar þvert og endilangt um landið til að boða mikilvægi hreyfingar fyrir fólk yfir miðjum aldri og eldri borgunum boccia eða ringó auk annarra greina. Árangur ferðanna er ljós enda hafa fjölmargir hópar sprottið upp um allt land þar sem greinarnar eru æfðar.
Flemming Jessen hefur verið mikilvægur hlekkur í starfi UMSB og hefur um áratugaskeið verið burðarás í íþróttastarfi sambandsins. Það er hann enn í frjálsíþrótta- og sundstarfi UMSB. Við undirbúning móta og skipulagningu þeirra er Flemming fyrsti maðurinn til að leggja sitt af mörkum og tryggja að allt sé klárt á keppnisdag. Með sínu óeigingjarna framlagi hefur hann verið fyrirmynd sjálfboðaliða og verið potturinn og pannan í flestum mótum UMSB. Flemming var auk þess í stjórn Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra. Félagið skipulagði meðal annars námskeið og hélt viðburði um allt land þar sem íþróttir aldraðra voru kynntar fólki. Flemming er maður sem öll héraðssambönd geta verið stolt af að hafa í sínum röpðum. Hann er maður sem alltaf er tilbúinn til þess að aðstoða og gefa góð ráð. Takk Flemming fyrir þitt framlag og gangi þér ævinlega sem allra best í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.
Guðjón Guðmundsson
Guðjón Guðmundsson (Gaui) hefur unnið með börnum og ungmennum um áratugaskeið. Áhugi Gauja og elja hefur verið mörgum ungum íþróttamönnum mikilvæg hvatning og fyrrsta skrefið að farsælum íþróttaferli margra. Þeir sem til hans þekkja vita að Gaui gerir kröfur. Hann er sanngjarn, hvetjandi og fylginn sér. Guðjón hefur starfað sem íþróttakennari síðan 1984 og komið að íþróttauppeldi margra. Á sama tíma og hann hefur þjálfað börn og ungmenni hefur hann tekið virkan þátt í mótahaldi innan UMSB. Oftar en ekki er það Gaui sem skipuleggur og setur upp sundmótin og stýrir þeim síðan af mikilli röksemd. Síðustu ár hefur hann gætt þess að Héraðsmót UMSB í sundi verði haldin. Mjög mikilvægt er að hafa mann eins og Gauja um borð til að hvetja nemendur sína til að taka þátttöku. Það er til fyrirmyndar, enda bætir það íþróttaiðkun barnanna og hvetur þau til að setja heilbrigði í fyrsta sæti í lífinu.
Guðjón hefur verið duglegur að fylgja iðkendum og hópum á Unglingalandsmót UMFÍ víða um land og haldið þar ævinlega utan um lið í körfu , fótbolta, sundi og í frjálsum. Ásamt ofangreindu hefur Guðjón sinnt Ungmennafélagi Reykdæla – uppeldisfélagi sínu af einstakri tryggð. Hann hefur þjálfað bæði frjálsar íþróttir, knattspyrnu, sund og körfuknattleik frá árinu 1990 eða í 30 ár fyrir félagið.
Það má því með sanni segja að hann hafi lagt sitt af mörkum til að ungmenni í Borgarfirði hafi átt þess kost að taka þátt og eflast í íþróttastarfi, leik og keppni öll þessi ár. Um er að ræða veganesti sem nýtist út lífið. Gaui, við erum öll þakklát fyrir að þú hafir staðið vaktina öll þessi ár. Hafðu bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag í þágu íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar og fyrir okkur í UMSB.
Páll Snær Brynjarsson
Páll hefur unnið gríðarlega óeigingjarnt starf fyrir íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna í mörg ár. Páll er formaður Knattspyrnudeildar Skallagríms, starf sem hann heldur utan um af alúð og því öryggi sem þarf. Páll er þessi yfirvegaði einstaklingur sem vinnur af röksemdum og ró. Félagsmenn tala oft um það hversu gott það sé að leita til Páls með ýmis mál sem þarf að ræða og leysa. Hann lumar iðulega á gagnlegum ráðum.
Páll hefur tekið virkan þátt í starfi og verkefnum UMSB sem sjálfboðaliði í tengslum við Unglingalandsmót UMFÍ og mjög virkan þátt í nefndum UMSB. Vegna tengsla og hversu góður hann er í mannlegum samskiptum þá er hann gjarnan í uppstillinganefnd UMSB. Þar sem Páll þekkir vel til flestra íþróttagreina hefur hann verið í nefnd um val á íþróttamanni ársins og verið í stjórn afreksmannasjóðs UMSB til fjölda ára. Alltaf er hann til þjónustu reiðubúinn að leggja hönd á plóg til þess að bæta íþróttastarf UMSB.
Sigríður Bjarnadóttir
Þegar talað er um badminton þá kemur nafn Siggu Bjarna alltaf upp. Sigga hefur haldið badmintoni á floti í Borgarfirði í fjölmörg ár. Hún er sannkölluð stjarna í badmintonheiminum og var sæmd gullmerki badmintonsambandsins árið 2018. Sigga var formaður Badmintonsambandsins í nokkur ár og vann þarf gott starf.
Óhætt er því að segja að þar sem Sigga er þar sé stutt í badminton – ef hún hefur þá ekki þegar innleitt það. Samhliða því að halda utan um badmintonstarfið hjá UMSB hefur hún verið formaður aðalstjórnar Skallagríms í nokkur ár. Árið 2018 kom Sigga inn í stjórn UMSB sem gjaldkeri og gegnir því embætti enn. Sigga er mikil félagsmálakona sem leggur sitt af mörkum í þágu samfélags okkar. Takk Sigga!