Fara á efnissvæði
30. september 2020

Flott heilsuefling fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi

„Það er æðislegt þegar við köstum út boltum að fólk í félögunum grípa þá og búa til svona frábært verkefni,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) ásamt Kópavogsbæ og íþróttafélögunum í bænum, Breiðabliki, Gerpu og HK ásamt Háskólanum í Reykjavík ætla 1. október næstkomandi að hleypa formlega af stað nýju verkefni sem heitir Virkni og vellíðan. Verkefnið er hluti af heilsueflingu eldri borgara í Kópavogi fyrir 60 ára og eldri. Verkefnið hlaut í vor styrk úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ.

Verkefninu er ætlað að styrkja líkamlega, andlega og félagslega heilsu eldri borgara í Kópavogi.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir verkefni eins og Virkni og vellíðan mikilvægt fyrir 60 ára og eldri.

„Ég veit um margt fólk sem hefur ekki hreyft sig mikið síðan í mars. Það er að koðna niður og þess vegna er mikilvægt fyrir það að taka þátt í svona verkefni og að bæjarfélög styðji við þau,“ segir hún.

Fjallað er um verkefnið í Kópavogsblaðinu. Þar segir að framboð fjölbreyttra námskeiða í hreyfingu fyrir 60 ára og eldri verður aukið til þess að koma á móts við hæfi og getu sem flestra. Jafnframt verða skipulagðar ferðir frá félagsmiðstöðvum eldri borgara í íþróttahús íþróttafélaganna, eldri borgurum að kostnaðarlausu.

 

„Með verkefninu er verið að bregðast við óskum um aukinn stuðning við íþróttastarf eldri borgara. Þá sýna rannsóknir að mikið forvarnargildi er fólgið í skipulagðri hreyfingu eldri borgara og félagslegri virkni. Það er því til mikils að vinna að fjölga í hópi eldri borgara sem geta stundað heilsurækt við hæfi,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, í samtali við blaðið.

 

Kynningarfundur 12. október

Kynningarfundir verða haldnir í Kórnum í Kópavogi kl. 17.00 og í Fífunni klukkan 20.00. Fundinum sem haldinn er klukkan 17.00 verður streymt á netinu. Boðið verður upp á skráningu í þátttö

ku í verkefninu í tengslum við kynningarfundina en einnig er hægt að nálgast skráningarformið á Facebook-síðu verkefnisins.

Aðkoma Háskólans í Reykjavík felst í því að hann mun sjá um mælingar á árangri heilsueflingar hjá íþróttafélögunum.

Virkni og vellíðan er hluti af aukinni áherslu Kópavogsbæjar á heilsueflingu eldri borgara. Fyrr í ár tók heimaþjónusta velferðarsviðs upp nýtt verkefni í velferðatækni sem heitir DigiRehab. Í því felst að heimahreyfing og virkni eldri borgara sem dvelja mikið heima fyrir er efld með aðstoð starfmanna heimaþjónustu.

 

 

Þessi tvö verkefni eru meginstoðir aukinnar áherslu á heilsueflingu eldri borgara í Kópavogi. Markmiðið er að byggja brú milli meginstoðanna  þannig að eldri borgarar í heimaþjónustu fái það góða hreyfifærni og styrkingu í gegnum DigiRehab að þeir geti með tímanum færst yfir í Virkni og vellíðan og njóti þar viðeigandi stuðnings og skipulagðrar hreyfingar við hæfi.

Nánar um fundinn og skráning á viðburðinn

Facebook-síða Virkni og vellíðan

 

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ

UMFÍ vekur athygli á því að opið er fyrir umsóknir í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ til og með fimmtudags 1. október. Fræðslu og verkefnasjóður UMFÍ hefur þann tilgang að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar m.a með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi. 

Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar í ungmennafélögum sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afla sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem gæti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmennafélagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.

Meira um Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ

Myndina hér að ofan er frá Kópavogsbæ.