Fólk trúir því ekki að þetta er spennistöð
„Þetta er nýjung sem á engan sinn líka og setur ný viðmið á tjaldsvæðum framtíðarinnar,‟ segir Gunnar Þór Gestsson, tjaldbúðastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ og formaður Ungmennasambands Skagafjarðar, um rafkerfið á tjaldsvæði mótsins.
Rafkerfi tjaldsvæðisins og hleðslustöðvar fyrir rafbíla eru tengdar rafstöð frá Rarik sem er á tjaldsvæðinu. Spennistöðin lítur út eins og gámur en er rafstöð sem liggur ofan á háspennulögn sem kemur frá Blönduvirkjun og liggur ofan við byggðina á Sauðárkróki út að Steinullarverksmiðjunni úti á Eyrinni.
Gámurinn frá Rarik sækir rafmagn úr háspennulögninni og tengist rafhleðslustöðvunum frá HS Orku og rafkerfinu fyrir allan þann fjölda tjaldbúðagesta sem vill tengjast rafmagni.
Rafhleðslustöðvarnar hafa vakið mikla undrun mótsgesta og trúa margir því vart að um rafstöð sé að ræða enda er hægt að hlaða 14 rafbíla á hleðslustöðvunum í einu.
Gunnar segir ótrúlega gott samstarf um að ræða við uppsetningu spennistöðvarinnar og hleðslustöðvanna. UMFÍ og Ungmennasamband Skagafjarðar sé þakklátt sveitarfélaginu og Rarik fyrir að gera þetta að veruleika.