Fondurnar hafa hreyft sig saman í 35 ár
Júlíus Sigurbjörnsson segir gott að vera í gönguhópi sem hreyfi sig reglulega. Hópur fyrrverandi kennara og mæður fyrrverandi nemenda við Hvassaleitisskóla í Reykjavík hefur hist reglulega í samfleytt 35 ár og stundað leikfimi, göngur, skokk og aðra útivist. Allar konurnar í hópnum eru öðru hvorum megin við sjötugt.
Júlíus Sigurbjörnsson, maður einnar konunnar í hópnum, segir það afar ánægjulegt að tengjast svona skemmtilegum kvennahópi sem hreyfir sig reglulega.
„Við karlarnir fáum að slást í hópinn þegar meira stendur til eins og t.d. göngu- og menningarferðir á erlendri grundu,“ segir hann. Svo skemmtilega vill til að nemendur við Hvassaleitisskóla settu einmitt Hreyfiviku UMFÍ vorið 2016. Gönguhópurinn hreyfir sig jafnt innanlands sem utan. Vikulega er gengið um nærumhverfi Hvassaleitisskóla. Annað hvert ár er svo farið í lengri göngur og menningarferðir á Íslandi en hitt árið erlendis. Í Hreyfiviku UMFÍ, í júní sl., var hópurinn á átta daga ferðalagi um Írland með íslenskum fararstjóra og buff merkt Hreyfivikunni á höfði.
Júlíus segir þetta ekki hafa verið beint við- burð tengdan Hreyfivikunni. „Ég sá þessa strokka áður en við fórum út og leist vel á þá, vildi auðkenna hópinn. Ég hafði því samband við þjónustumiðstöð UMFÍ og fékk um 20 stykki. Það var mjög gott að hafa þá bæði á höfði og um hálsinn,“ segir Júlíus og leggur áherslu á að hann kjósi frekar að nota orðið „strokkur“ yfir buffin.
Greinin birtist í 3. tbl Skinbfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið allt er hægt að nálgast hér á vefsíðu UMFÍ.