Fara á efnissvæði
10. febrúar 2019

Formaður UMFÍ hvatti til meiri samvinnu á ársþingi KSÍ

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, flutti ávarp fyrir hönd ungmennafélagshreyfingarinnar á ársþingi KSÍ laugardaginn 9. febrúar. 

Haukur lagði áherslu á kosti barna- og unglingastarfs og hvatti íþrótta- og ungmennafélög til þess að vinna saman. 

Hér má lesa erindi Hauks í heild sinni: 

 

Ársþing KSÍ haldið 09. 02. 2019 á Hótel Hilton

 

Fulltrúar ÍSÍ, formaður KSÍ og stjórn, góðir þingfulltrúar og gestir.

Ég flyt ykkur kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ.

Sú velgengni sem íslensk knattspyrnan hefur átt að fagna undanfarin ár er ekki tilviljun. Að stórum hluta getum við þakkað það góðu barna og unglingastarfi sem skilar sér svo áfram upp til eldri flokka og langt út í heim. Að skapa umgjörð og aðstæður til þess að ná framförum er lykilþáttur og það getur verið á ýmsan hátt, m.a. með menntuðum þjálfurum.

Það verður ekki annað sagt en að bjart sé framundan í íþróttastarfi á Íslandi. Margt er í pípunum sem getur bætt umgjörð þess. Frumvarp um samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi og ný íþróttastefna eru í mótun og búið að leggja fram frumvarp um endurgreiðslu virðisaukaskatts til félagasamtaka. Það getur eflt starfsemi og bætt aðstöðu og umgjörð íþrótta- og ungmennafélaga um allt land.

Leiðarljós okkar hjá UMFÍ er að viðhalda gleðinni sem felst í þátttöku í íþróttum og auka fjölbreytni í starfinu. Við höfum sem dæmi staðið fyrir öðruvísi útfærslu á knattspyrnu en margir þekkja. Á bæði Landsmótinu og Unglingalandsmótinu í fyrrasumar buðum við upp á keppni í sandfótbolta, pannafótbolta 1 á móti 1 og fleiri útgáfur af fótbolta ásamt öðruvísi útfærslum á vinsælum íþróttagreinum. Við sjáum að fólk sækir í fjölbreytnina.

Fyrir nokkrum mánuðum buðum við sambandsaðilum UMFÍ og sveitarfélögum að sameinast um pöntun á pannavöllum, litlum fótboltavöllum sem hægt er að færa út stað og landshorna á milli með lítilli fyrirhöfn.  Kallinu var svarað og komu pannavellirnir til landsins í vikunni. Þeir eru 22 talsins sem í þessum töluðu orðum eru að fara um allt land jafnt ungum sem eldri til afnota.  

Margt af því sem við gerum er í samstarfi við aðra, ÍSÍ og KSÍ og forsvarsfólk knattspyrnu á þeim stöðum sem mót UMFÍ fara fram. Samstarfið skilar sér ævinlega í betra og árangursríkara starfi.

Við þurfum að vera óhrædd við að vinna meira saman til að ná til fleiri. Þar á meðal eru nýir íbúar á Íslandi, hópur fólks, einkum börn og unglingar. Sýnt hefur verið fram á að íþróttir hjálpa þeim að fóta sig betur í nýju umhverfi.

Hér vil ég fyrst og fremst hvetja knattspyrnuhreyfinguna til góðra verka og samstarfs.

Við eigum öll að geta horft björtum augum til framtíðar. Um leið óska ég ykkur velfarnaðar í ykkar störfum heima í héraði og hér á þinginu.

 

Gangi ykkur vel og takk fyrir mig.