Fara á efnissvæði
15. október 2022

Formaður UMFÍ: „Þurfum að vera hugrökk“

„Við þurfum að vera hugrökk og hafa kjark til að takast á við breytta tíma. Hreyfingin er ótrúlega kraftmikil og hokin af reynslu. Við vitum hvað þarf til og með ungmennafélagsandann að leiðarljósi verður þetta skemmtilegt viðfangsefni í góðra vina hópi og verður samfélaginu til góða,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.

Hann hélt erindi við setningu 44. sambandsráðsfundar UMFÍ sem fram fer í dag á Höfn í Hornafirði. Þar eru staddir rúmlega 40 fulltrúar íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar af landinu öllu, sem aðild eiga að UMFÍ. Fundurinn er haldinn annað hvert ár þar sem málefni hreyfingarinnar eru rædd í þaula frá ýmsum hliðum með fulltrúum sambansdaðila UMFÍ. 

 

Óhrædd við að endurhugsa hluti

Jóhanni var tíðrætt um COVID-faraldurinn. Hann sagði að þótt honum væri að mestu lokið þá er fólk enn að glíma við afleiðingarnar. Mataræði margra versnaði, fólk hreyfði sig minna saman, fór ekki á fjölmenna viðburði og það hafði í för með sér meiri einsemd.

 

 

„Við stöndum öll frammi fyrir þessu verkefni og því er vandinn samfélagslegur. Við sláum ekki af og bítum í skjaldarrendur. Eitt af stærstu verkefnunum framundan eru lýðheilsumál í stóra samhenginu þar sem við horfum bæði á líkamlega og andlega þáttinn,“ sagði hann og hélt áfram:  

 

Flutningur í Íþróttamiðstöðina ný skref

„Við höfum þurft að endurhugsa sviðsmyndir, sem hafa margar reynst jákvæð skref. Við höfum tekið upp ný vinnubrögð, eigum að vera óhrædd við að hugsa hlutina upp á nýtt, starfshættina, fjárhagsmálin og styrktarmálin,“ sagði hann og benti á að eitt af stóru sporum íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar sé flutningur á þjónustumiðstöð UMFÍ í Íþróttamiðstöðina í Laugardal. Í sama húsi eru skrifstofur ÍSÍ, Íþróttabandalags Reykjavíkur og Ungmennasambands Kjalarnesþings auk sérsambanda.

„Þessar breytingar og flutningurinn er ákaflega jákvætt skref, samgangur og samskipti íþróttahreyfingarinnar verða mun meiri en nokkru sinni og munum við verða miklu sterkari saman en í sundur,“ sagði Jóhann í ávarpi sínu.

 

Ávarp Jóhanns í heild sinni:

 

Góðir ungmennafélagar.

Velkomin á sambandsráðsfundinn hér á Höfn. Það er afar ánægjulegt að sjá ykkur enda starfið að komast í hefðbundnara horf þar sem við getum orðið hist reglulega í raunheimum.

Segja má að við höfum haft í nægu að snúast á þessu ári sem liðið er frá síðasta þingi.

Við höfum farið saman í gegnum tvö ár af faraldri. Vírus sem fór um heimsbyggðina og breytti mörgu, sumu til hins verra en öðru til hins betra.

 

 

Við höfum tekið mörg góð skref inn í framtíðina í tæknimálum. Innleiddum ýmislegt sem getur bætt lífið og annað sem mun vonandi koma íþróttahreyfingunni til góða.

Á hinn bóginn eru ýmsar neikvæðar afleiðingar. Mataræði margra versnaði, fólk hreyfði sig minna saman, fór ekki á fjölmenna viðburði og það hafði í för með sér meiri einsemd.

Því miður erum við enn að glíma við ýmsa neikvæða eftirmála veirufaraldursins.

En við sláum ekki af og bítum í skjaldarrendur. Eitt af stærstu verkefnunum framundan eru lýðheilsumál í stóra samhenginu þar sem við horfum bæði á líkamlega og andlega þáttinn.

Við hjá UMFÍ erum aðilar að ISCA – sem eru alþjóðleg samtök ýmissa grasrótarsamtaka á sviði íþrótta, sér í lagi almenningsíþrótta.  Í gegnum tíðina hefur myndast sterk tenging og höfum við átt afar gott samtal við samtökin og erum þar með í beinu samtali við grasrótarstarf víðsvegar um heiminn. Í vor átti ég þess kost að taka þátt í ráðstefnu í Evrópuþinginu með þingmanni þeirra og fulltrúum lýðheilsumála víðsvegar frá Evrópu. Þar komu skýrt fram áhyggjur fólks af æ verri lýðheilsu í kjölfar COVID og var vísað í gögn frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, WHO, því til stuðnings.

Fyrirliggjandi skýrslur heilbrigðisyfirvalda benda til þess að lífsstíll okkar sé að reynast okkur fjötur um fót. Stór hluti Evrópubúa glímir við offitu og ofþyngd. Þetta á við um fólk á öllum aldri og ljóst er að um 60% íbúa álfunnar eru að glíma við þetta lífsstílsvandamál.

Mörgu er um að kenna en þó er sérstaklega horft til minni hreyfingar samhliða óhollara mataræði og jafnvel röngu mataræði. Þetta skerðir lífsgæði fólks og setur þrýsting á heilbrigðiskerfi álfunnar með tilheyrandi fjárhagslegum kostnaði.

Við stöndum öll frammi fyrir þessu verkefni og því er vandinn samfélagslegur.

Þótt veirufaraldurinn sé nokkurn vegin að baki þá erum við enn að glíma við afleiðingarnar sem endurspeglast meðal annars í rekstrartölum fyrir yfirstandandi rekstrarár. Við – og svo sem forsvarsfólk allra félaga bæði hér á landi og erlendis – höfum þurft á öllu okkar að halda til að koma starfinu í gang aftur. Þetta eru kostnaðarsöm skref sem hafa annars vegar reynt á fjárhagslega og hins vegar andlega og líkamlega á alla þá sem að því koma. Við höfum þurft að grípa til margra ráða og fara djúpt í verkfærakistuna.

Nýjar aðstæður kalla á mikilvægi þess að kunna að nýta þau tækifæri sem geta komið upp. Á þeim tímum skiptir máli að við erum sveigjanleg samtök og getum gripið gæsina þegar hún gefst.

Mörg slík augnablik hafa komið upp á árinu. ÖBÍ réttindasamtök hafa unnið að því að koma aðildarfélögum sínum undir eitt þak. Þau föluðust eftir hlut UMFÍ í fasteigninni í Sigtúni og var lendingin sú að þau keyptu hlutinn. Andvirði sölunnar átti samkvæmt þingsamþykkt að ráðstafa til kaupa á ríkisskuldabréfum en eftir samtöl við bankastofnanir var ákveðið að bíða að sinni með slík kaup vegna þeirrar óvissu sem uppi er í efnahagslífinu. Fjárhæðin er því enn geymd á sparisjóðsreikningi í Landsbankanum.

Í kjölfarið mun þjónustumiðstöð UMFÍ flytja á þriðju hæðina í Íþróttamiðstöðina við Laugardalinn.

Flutningurinn markar spor í sögu íþróttahreyfingarinnar því sjaldan ef nokkurn tíma hafa ÍSÍ og UMFÍ deilt sama þaki. Í Íþróttamiðstöðinni eru líka skrifstofur Íþróttabandalags Reykjavíkur og Ungmennasambands Kjalarnesþings auk sérsambanda.

Þessar breytingar og flutningurinn er ákaflega jákvætt skref, samgangur og samskipti íþróttahreyfingarinnar verða mun meiri en nokkru sinni og munum við verða miklu sterkari saman en í sundur.

Af öðrum ánægjulegum skrefum má nefna að í vor æxluðust mál á þann veg að viðræður hófust á milli UMFÍ og sveitarstjórnar Húnaþings vestra um rekstur Skólabúðanna á Reykjum.  Í ágúst var skrifað undir samning og hófust af fullum krafti endurbætur á húsnæðinu, sem hafði látið á sjá í gegnum árin. Á sama tíma fékk Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skólabúða UMFÍ og Ungmennabúðanna á Laugarvatni það stóra verkefni að fullmanna báða staði, það er fyrir norðan og sunnan. Það tókst í tæka tíð áður en fyrstu nemendurnir komu mættu galvaskir á svæðið.

Gríðarlegir möguleikar felast í þessum verkefnum fyrir UMFÍ bæði til skamms tíma og til framtíðar. Forsvarsfólk íþrótta- og ungmennafélaga landsins geta einnig leigt húsnæðið utan skólatíma, bæði yfir veturinn og á sumrin. Reynsla er komin á þetta á Laugarvatni en þar hafa verið sumarbúðir, Íþróttaakademían hefur verið með vikudvalir, Íþróttasamband fatlaðra með ævinýradvöl og svo má lengi telja. Vinnufundur stjórnar og nefnda var einnig haldinn þarna fyrir nokkrum vikum og er áhugi fyrir því að efla slíka vinnu enn frekar. Húsnæðið á Reykjum er síðan margfalt stærra og býður upp á enn meiri möguleika fyrir íþrótta- og ungmennafélög, m.a. sundlaug og íþróttahús.

Það sem stendur þó uppúr er að á Laugarvatn koma um 2.000 nemendur úr 9. bekk grunnskóla af öllu landinu og á Reyki koma meira en 3.000 nemendur í 7. bekk. Því má með sanni segja að umfang skóla- og ungmennabúðanna hafi meira en tvöfaldast og náum við orðið til fleiri barna með beinum hætti en nokkru sinni fyrr.

Við erum um þessar mundir að móta miðlunarstefnu til að ná betur en áður til allra þessara nemenda og uppfræða þau til lífstíðar með grunngildi ungmennafélagshreyfingarinnar í farteskinu.

Þetta eru aðeins tvö dæmi af þeim stóru og nýju verkefnum sem við höfum unnið hjá UMFÍ.

Kannski getum við þakkað stefnumótuninni sem við höfum unnið vel að síðustu misserin að við erum sveigjanleg og getum með stuttum fyrirvara aðlagað UMFÍ að breyttum tíma þegar á þarf að halda.

Við höfum þurft að endurhugsa sviðsmyndir, sem hafa margar reynst jákvæð skref. Við höfum tekið upp ný vinnubrögð, eigum að vera óhrædd við að hugsa hlutina upp á nýtt, starfshættina, fjárhagsmálin og styrktarmálin. Hugmyndin var að hafa styrktarmálin á dagskrá þessa fundar í framhaldi af umræðu á vorfundi en eftir nánari skoðun var ákveðið að vísa málinu til frekari undirbúnings hjá Fræðslu- og verkefnasjóð.  

Við þurfum að vera hugrökk og hafa kjark til að takast á við breytta tíma. Hreyfingin er ótrúlega kraftmikil og hokin af reynslu. Við vitum hvað þarf til og með ungmennafélagsandann að leiðarljósi verður þetta skemmtilegt viðfangsefni í góðra vina hópi og verður samfélaginu til góða.

Á dagskrá fundarins eru málefni sem varða lýðheilsu í landinu. Eins og okkur einum er lagið snúum við bökum saman og mótum í sameiningu starfið til framtíðar. Því hvet ég ykkur sérstaklega til að taka þátt í þeirri umfjöllun sem framundan er. Það er ungmennafélagsandinn að verki.