Forvarnardagurinn í dag
Þau Ernir Daði Arnbergz Sigurðsson og Karen Hulda Finnsdóttir, sem bæði eru í Ungmennaráði UMFÍ, voru fulltrúar ungu kynslóðarinnar á Forvarnardeginum sem settur var í Ingunnarskóla í Grafarholti í dag. Þau héldu ávarp á fundinum þar sem þau lýstu kostum skipulags íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Á viðburðinum hélt Halla Tómasdóttir forseti Íslands ávarp um kærleikann, leiðir til að auka vellíðan ungs fólks og kosti þess að gefa símum frí.
Á meðal annarra sem héldu erindi voru Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, Alma Möller landlæknir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri Planet Youth, auk Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur hjá Embætti landlæknis. Hún var jafnframt fundarstjóri.
Forvarnardagurinn er haldinn í nítjánda skipti í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hann er samstarfsverkefni Embættis landlæknis sem stendur að deginum í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátana, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Planet Youth, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés, Heimili og skóli í samstarfi félagasamtaka í forvörnum og Ríkislögreglustjóri.
Fundurinn var sendur út í beinu streymi.
Hann er hægt að sjá á vef visir.is.
Ávörp þeirra Karenar og Ernis Daða byrja á tímanum 58:43.
Myndir frá Forvarnardeginum má sjá hér að neðan.