Fara á efnissvæði
14. janúar 2026

Framlög og styrkir fyrir tæpa 1,3 milljarða

Ný fjármögnunarleið fyrir íþróttafélög opnaðist með breytingum á skattalegum hvötum undir lok árs 2021. Leiðin felur í sér að einstaklingar og fyrirtæki geta fengið skattafrádrátt fyrir stuðning við félag á almannaheillaskrá Skattsins. Framlög til íþróttastarfs hafa aukist hratt á síðastliðnum fjórum árum og hafa sum íþróttafélög átt betra mót en önnur.

Frá því lög um skattafrádrátt vegna framlaga til almannaheillafélaga tóku gildi í lok árs 2021 hefur fjárstreymi til íþróttafélaga í formi styrkja vaxið hratt. Á fyrsta árinu, sem náði aðeins yfir lok ársins 2021, námu framlög til íþróttafélaga 30 milljónum króna. Árið eftir hækkaði fjárhæðin í 241 milljón og árið 2023 í 441 milljón. Í fyrra var upphæðin komin í 547 milljónir króna á einu ári.

Þetta er næstum 130 prósenta aukning ef fyrsta árið er undanskilið og aðeins miðað við þrjú heil ár.

Miðað við þessar tölur hafa samtals 1,3 milljarðar króna runnið til íþróttahreyfingarinnar í formi framlaga frá einstaklingum og fyrirtækjum frá því lögin tóku gildi.

„Fyrir flest íþróttafélög skiptir hver króna miklu máli og því hjálpar að bjóða upp á styrkjakerfi eins og þetta svo þau þurfi ekki að vera í endalausu harki. Uppskeran virðist líka vera góð fyrir félögin því einstaklingar og fyrirtæki hafa verið að átta sig æ betur á því að þau geta styrkt íþróttafélög með þessum hætti. En það áhugaverða er hversu hröð þróunin er,“ segir Sævar Þór Sveinsson, viðskiptafræðingur og ritstjóri netmiðilsins UTAN VALLAR.

Hann vakti athygli á málinu í umfjöllun sinni um fjárframlög til íþróttastarfs í Viðskiptablaðinu og á netmiðli sínum.

Í miðlinum fjallar Sævar um ýmsar hliðar fjármála og íþróttafélaga. Hann kafar ofan í ársreikninga íþróttafélaga, fjallar um fjárhagsleg áhrif einstakra liða í stórum alþjóðlegum keppnum, svo sem um tekjur kvennaliðs Breiðabliks þegar liðið komst í 16-liða úrslit í nýstofnuðum Evrópubikar hjá UEFA, fjárhagslegar afleiðingar af falli knattspyrnuliðs í deild og svo má lengi telja.

Sævar segir að ríkið fái vissulega ekki eins miklar skatttekjur af styrkjum til íþróttafélaga og það gæti fengið. Á hinn bóginn sé þetta form af styrkjum gott fyrir alla, sérstaklega þar sem framlögin efli íþróttahreyfinguna sem styðji við forvarnarstarf. Fyrirkomið skili sér margfalt til baka og því góð fjárfesting fyrir ríkið.

„Ég held að allt sem stjórnvöld geti gert til að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til að beina pening- um sínum til íþróttahreyfingarinnar sé af hinu góða,“ segir Sævar.

 

Skattafrádráttur skilar árangri

Gögnin sem Sævar studdist við og nýtt er í Skinfaxa, tímariti UMFÍ, eru komin úr svari Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, sem í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í byrjun júlí spurði ráðherra um skattafrádrátt vegna styrkja til félaga á Almannaheillaskrá Skattsins.

Fyrirspurnin var í þremur liðum:

  1. Hver er heildarfjárhæð styrkja til félaga á almannaheillaskrá sem einstaklingar og lögaðilar hafa nýtt sem stofn til frádráttar frá skatti allt frá gildistöku laga nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld? Svar óskast sundurliðað eftir árum og félagi.
  2. Hver er heildarfjárhæð frádráttar frá skatti sem einstaklingar hafa fengið samþykktan á sama grundvelli? Svar óskast sundurliðað eftir árum, kyni og aldri.
  3. Hver er heildarfjárhæð frádráttar frá skatti sem lögaðilar hafa fengið samþykktan á sama grundvelli? Svar óskast sundurliðað eftir árum.

Ráðherra svaraði í byrjun september.

Í svarinu kemur fram að gjafir og framlög til allra félaga á Almannaheillaskrá Skattsins námu rétt rúmum 995 milljónum króna árið 2021.

Taka skal fram að lögin tóku gildi í nóvember 2021 og því stutt til áramóta.

Fyrsta heila árið námu framlögin 6,6 milljörðum króna og í fyrra 8,5 milljörðum króna. Framlög frá einstaklingum til félaga á almannaheillaskrá Skattsins hafa frá upphafi verið lungi framlaganna.

Framlag einstaklinga nam sem dæmi 6,7 milljörðum króna í fyrra en lögaðila 1,8 milljörðum króna.


Upplýsingar um greiðslur í heild Alþingi

Hægt er að smella á hlekkinn og sjá svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrir spurn Hildar Sverrisdóttur á vefsvæði Alþingis í heild   sinni.

 

Svarið á vef Alþingis

 

Ítarlega er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. 

Við höfum tekið saman hvaða íþróttafélög hafa fengið styrki og framlög og hvar á landinu styrkirnir lenda.

Þú getur smellt á myndina hér að neðan og lesið rafræna útgáfu af blaðinu. 

Þú getur líka smellt hér og fengið nýjasta tölublað Skinfaxa sent til þín í tölvupósti um leið og það kemur út. Áskriftin er ókeypis.

 

Smelltu hér: Já, ég vil fá Skinfaxa í tölvupósti