Fara á efnissvæði
08. nóvember 2024

Freyja Rós hlaut Hvatningarverðlaun gegn einelti

Freyja Rós Haraldsdóttir, kennari við Menntaskólann á Laugarvatni, hlaut í dag Hvatningarverðlaun gegn einelti sem veitt eru í tilefni af Degi gegn einelti. Hefð er fyrir því að veita verðlaunin í tilefni dagsins til einstaklinga eða verkefnis sem unnið hefur ötullega gegn einelti. 

Hvatningarverðlaunin voru afhent með pompi og prakt í húsi Tækniskólans (gamla Sjómannaskólann) að viðstöddu fjölmenni. Þar á meðal var Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Ráðuneytið veitir verðlaunin í samstarfi við samtökin Heimili og skóli í tengslum við daginn. 

Það er fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum sem velur verðlaunahafa ár hvert úr innsendum tilnefningum og eru þau veitt þeim einstaklingi eða verkefni sem talinn er hafa unnið ötullega gegn einelti. 

Á síðasta ári hlaut Hvatningarverðlaunin Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála í Tækniskólanum. 

Ásmundur Einar sagði í ávarpi sínu við afhendingu verðlaunanna Freyju hafa verið í forystu við Menntaskólann á Laugarvatni í því að móta og gefa út áætlanir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu og fleiru. 

„Það sem vakti sérstaka athygli fagráðsins var vinna sem hún hefur unnið á Degi gegn einelti en þá hefur hún haldið utan um metnaðarfulla dagskrá. Þar á meðal er verkefnið Slúður er klúður en tilgangur þess er að styðja við góðan skólaanda sem byggir á trausti og góðum samskiptum. Vinna með Freyju í fararbroddi sýnir hvað Menntaskólinn á Laugarvatni tekur vinnu við einelti og forvarnir alvarlega,“ sagði ráðherra. 

UMFÍ og ÍSÍ hafa unnið mikið með öllum þeim sem að Hvatningarverðlaununum koma, þar á meðal Mennta- og barnamálaráðuneytinu, Heimili og skóla – landssamtökum foreldra en þau eru eitt aðildarfélaga Almannaheilla ásamt UMFÍ. Auður Inga Þorsteinsdóttir og Jón Aðalsteinn Bergsveinsson frá UMFÍ voru viðstödd afhendingu verðlaunanna ásamt þeim Ragnhildi Skúladóttur og Lindu Laufdal frá ÍSÍ.