Fara á efnissvæði
24. febrúar 2024

Fullt af frambærilegum konum í hreyfingunni

„Ég heyri sagt að konur bjóði sig ekki fram, láti ekki í sér heyra, standi frekar á hliðarlínunni í bókstaflegum skilningi. Á sama tíma vitum við að það er fullt af frambærilegum konum í hreyfingunni,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. Hún hélt ávarp við setningu ársþings Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) í morgun. 

Töluverð breyting voru fyrirliggjandi á þinginu. Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, gaf ekki kost á sér áfram, Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, tilkynnt að hún muni hverfa til annarra starfa, auk þess sem Borghildur Sigurðardóttir gaf ekki kost á sér áfram til setu í stjórn KSÍ.

Á hinn bóginn var þingforseti Helga Guðrún Guðjónsdóttir, fyrrverandi formaður UMFÍ, sem jafnframt var fyrsta konan til að setjast í formannsstól UMFÍ. Auður Inga er jafnframt fyrsta konan í sæti framkvæmdastjóra UMFÍ.

Auði Ingu var tíðrætt um breytingar í íþróttahreyfingunni sem framundan eru og geti nýst til að hvetja folk til þátttöku í íþróttum. 

Þar á meðal er vinna sem er nú í fullum gangi við skipulagningu svæðastöðva íþróttahéraða. Þar er horft til 8 svæða sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.   Með svæðastöðvunum er horft til þess að íþróttahreyfingin gangi betur í takt og geti veitt þjónustu um allt land, en ekki bara á sumum stöðum.
  
Mennta- og menningarmálaráðherra tók mjög vel í tillögur íþróttahreyfingarinnar um stofnun svæðastöðva og tryggði 400 milljónir til verkefnisins til næstu tveggja ára. 

Auður sagðist full bjartsýni og væntinga um svæðastöðvarnar og árangurinn af starfi þeirra á landsvísu. 

„Þegar við snúum bökum saman í hreyfingunni þá getum við náð betri og skjótari árangri heldur en hvert í sínu horni. Eins og í öðrum stórum verkefnum þá eru alls konar áskoranir og útfærslur sem þarf að huga að og mikil vinna er í gangi í undirbúningi þessa verkefnis sem við bindum miklar vonir við. En við verðum að vera óhrædd við að spyrja okkur, greina menninguna og nýta gögn sem drifkraft og forsendu breytinga,“ sagði hún. 


Ávarp Auðar Ingu í heild sinni. 
  
 

ÁVARP Á 78. ÁRSÞINGI KSÍ 24. FEBRÚAR 2024

Formaður og stjórn KSÍ, ágætu gestir og þingfulltrúar. 

Ýmislegt hefur breyst síðan við hittumst á Ísafirði fyrir ári. Hér eru mörg kunnugleg andlit og önnur ný.

Í mörgum tilvikum er gaman að sjá að fátt breytist. Það er ákveðið öryggi að halda hlutum í horfinu. Það gerir hins vegar fáum gott að hafa alltaf allt eins. Breytingar geta verið af hinu góða. 
 
Það er ánægjulegt að fylgjast með þróuninni á vettvangi knattspyrnuhreyfingarinnar. Ungmennaráð og ungmennaþing KSÍ svo fátt er nefnt. Ungu fólki sem við munum sjá verða virka sjálfboðaliða á fullorðinsárum, það er að minnsta kosti okkar reynsla hjá UMFÍ af því að starfrækja ungmennaráð, þau taka þátt og eru virk.

Reynir Hellissandi er einn af verðlaunahöfum ársins hjá KSÍ en í umsögn er meðal annars minnst á heimildamyndina Heimaleikurinn. Myndin sýnir svo glöggt að íþróttir snúast um margt annað en sjálfa íþróttina. Það er hægt er að skapa umgjörð sem einkennist af gleði og ungmennafélagsanda. Í slíku félagi vilja allir vera með.

Í myndinni birtast líka ýmis konar áskoranir og m.a. kona sem stendur utan leiksins en langar til að taka þátt eins og í gamla daga. Þótt allt virðist vonlaust og þröskuldarnir ógnarháir þá finna vinir hennar leiðir svo hún geti verið með.

Þessi kona getur verið málsvari svo margra. Það er hægt að yfirfæra hana yfir á einstaklinga með fötlun, af erlendu bergi brotin eða með ótraust bakland. Þær tölur sem við í hreyfingunni höfum sýna okkur að það er verk að vinna svo allir geti verið með. Það skiptir bara máli fyrir einstaklingana sjálfa. Það skiptir máli fyrir  samfélagið. Gögnin sýna okkur nefnilega líka að þeim einstaklingum sem taka þátt í skipulagða starfinu eiga almennt farsælla og heilbrigðara líf en þeir sem standa utan þess. 
 
En aftur að breytingum. 
 
Nú stendur yfir vinna við skipulagningu svæðastöðva íþróttahéraða. Þar er horft til 8 svæða sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.   
 
Hreyfingin vill ganga í takt og veita þjónustu um allt land, en ekki bara sums staðar og alls konar eins og verið hefur víða í gegnum árin.

Samstarf og samvinna eru lykilþættir og samhliða breytingunni voru gerðar breytingar á útgreiðslu lottó frá ÍSÍ og UMFÍ. Það verður því ekki lengur þannig að sumir fái greitt lottó og aðrir ekki. Það mun ekki skipta máli með hvaða hætti félög tengjast hreyfingunni, það eru sömu forsendur til allra.  
 
Þegar íþróttahreyfingin hafði náð niðurstöðu eftir það sem sumir kalla áratuga deilur þá tók Mennta- og barnamálaráðherra vel undir með tillögum ÍSÍ og UMFÍ og tryggði aukið fjármagn inn í verkefnið. Það er nefnilega þannig að þegar við snúum bökum saman í hreyfingunni þá getum við náð betri og skjótari árangri heldur en hvert í sínu horni. 
 
Eins og í öðrum stórum verkefnum þá eru alls konar áskoranir og útfærslur sem þarf að huga að og mikil vinna er í gangi í undirbúningi þessa verkefnis sem við bindum miklar vonir við. 
 
Fyrir þetta þing hefur verið töluverð umræða um stöðu kvenna í íþróttahreyfingunni og skiljanlega í ljósi þess að nú stíga til hliðar úr forystunni mjög öflugar konur.  
 
Ég heyri sagt að konur bjóði sig ekki fram, láti ekki í sér heyra, standi frekar á hliðarlínunni í bókstaflegum skilningi. Á sama tíma vitum við að það er fullt af frambærilegum konum í hreyfingunni.  Við verðum að vera óhrædd við að spyrja okkur, greina menninguna og nýta gögn sem drifkraft og forsendu breytinga.  
 
Ég fagna auknum sýnileika í ársskýrslu sambandsins varðandi þátttöku kvenna og held að í þessu eins og mörgu sé margt smátt sem geri eitt stórt. 
 
Er það hafið eða fjöllin sem laða mig hér að - er spurt í laginu sem hreyfingin fyrir vestan þekkir hvað manna best - eða er það kannski fólkið? 
 
Það er held ég lykilatriðið -  fólkið -  og með því að bæta við gleði þá verður þá verður til öflugur hópur fólks sem deilir sömu ástríðu og áhugamálum eins og hér í dag. 
 
Gangi ykkur vel að velja fólkið ykkar í dag, breytingar eru framundan, svo mikið er ljóst. 
 
Við ykkur öll sem stíga til hliðar hér í dag langar mig til að þakka gott samstarf og bendi á að hægt er að halda góðum tengslum við hreyfinguna með öðrum hætti. Þingforseti hér í dag er sem dæmi Helga Guðrún, sem er ein af brautryðjendum íþróttahreyfingarinnar, fyrsta konan sem formaður UMFÍ. 

Nú þakka ég fyrir mig. Gangi ykkur vel í dag.