Fara á efnissvæði
02. október 2024

Fullt hús með ráðningu Sigríðar Ingu

„Mér lýst rosalega vel á þetta verkefni. Við erum að gera margt gott í íþróttahreyfingunni. Það verður gaman að kynnast því góða fólki sem rekur íþróttahreyfinguna um allt land af dugnaði og ósérhlífni og sjá hvað það hefur að segja, fara yfir málin og athuga hvernig við getum gert gott starf enn betra,“ segir Sigríður Inga Viggósdóttir, sem var á dögunum ráðin í starf svæðisfulltrúa á svæðisstöð íþróttahreyfingarinnar á Norðurlandi vestra.

Með ráðningunni er lokið ráðningu allra 16 starfsmanna svæðisstöðvanna. Sigríður Inga er annar tveggja svæðisfulltrúanna á svæðinu og vinnur þar með Halldóri Lárussyni. Sigríður er Skagfirðingur í húð og hár og er búsett á Sauðárkróki. Hún er með BSc í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og var á sama tíma í náminu og Halldór.

Sigríður Inga hefur mikla reynslu úr íþrótta- og tómstundastarfi. Hún var sviðstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ í fjögur ár (2012–2016), skrifstofustjóri hjá KKÍ 2016–2019, verkefnastjóri Vinaliðaverkefnis 2019–2022 og verkefnastjóri frístundar hjá Skagafirði 2019–2023. Seinasta vetur var hún verkefnastjóri körfuknattleiksdeildar Tindastóls.

Sigríður Inga hóf störf í gær.

 

Sextán starfsmenn um allt land

Svæðisfulltrúar svæðisstöðva íþróttahéraðanna eru nú orðnir sextán á átta starfssvæðum um allt land. Störfin sextán voru auglýst í sumar og bárust 200 umsóknir um þau.

Hlutverk svæðisstöðvanna er að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni, styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar.

Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Tillögur um stofnun svæðisstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ vorið 2023 og á þingi UMFÍ haustið 2023.