Fara á efnissvæði
31. mars 2025

Fyrrverandi formaður UMFÍ heiðraður á þingi HSK

„Þingið gekk vel, um 130 gestir með þingfulltrúum aðildarfélaga,“ segir Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK), um 103. þing sambandsins sem fram fór í Aratungu í síðustu viku. 

Þingið fór fram með hefðbundnum hætti, stjórn HSK endurkjörin eins og hún lagði sig. Stærsta málið fyrir þinginu var tillaga stjórnar um breytingu á lottógreiðslum til aðildarfélaga. Hún er í samræmi við reglugerð UMFÍ og ÍSÍ, sem felur í sér að megnið af þeim lottófjármunum sem héraðssambandið fær miðast í grófum dráttum við hlutfall 18 ára og yngri hjá félögunum. 

 

Heiðranir í hávegum

Töluvert var um heiðranir á þingi HSK.

Geirþrúður Sighvatsdóttir, Guðný Rósa Magnúsdóttir, Sveinn Sæland og Helgi Kjartansson voru öll sæmd starfsmerki UMFÍ.

Geirþrúður hefur setið í ritstjórn Litla-Bergþórs, blaðs Umf. Biskupstungna, í 34 ár af 55 ára sögu blaðsins, Hún hefur um árabil unnið að menningarmálum með leikdeild Umf. Biskupstungna og Sveinn hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum hjá Umf. Biskupstungna, Golfklúbbi Flúða og setið í stjórn HSK.

Helgi hefur tekið virkan þátt í starfsemi Umf. Hvatar í Grímsnesi og Umf. Biskupstungna, meðal annars sem formaður félagsins. Hann hefur setið í glímunefnd og varastjórn HSK og var um tíma formaður Glímusambands Íslands. Hann er tvöfaldur Skjaldarhafi Skarphéðins og þrefaldur landsmótsmeistari í glímu.

Á myndinni hér að ofan má sjá Helga, Geirþrúði, Guðnýju Rósu og Svein ásamt Rakel Magnúsdóttur, svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á Suðurlandi. Lengst til hærri er Guðmunda Ólafsdóttir, fulltrúi UMFÍ á þinginu.

 

Fyrrverandi formaður með gullmerki HSK

Björn Bjarndal Jónsson, fyrrverandi formaður HSK og UMFÍ, var sæmdur gullmerki sambandsins og Guðni Sighvatsson, gjaldkeri glímuráðs HSK, var sæmdur silfurmerki.

Frá því að Björn Bjarndal, frá Neðra-Dal, varð 14 ára og gekk í Umf. Biskupstungna hefur hann látið til sín taka innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Björn varð formaður Umf. Biskupstungna árið 1982 og hélt um stjórnartaumana til 1984. Hann var formaður HSK frá 1988 til 1991 og árið 1995 var hann kjörinn varaformaður UMFÍ. Hann var svo einróma kjörinn formaður UMFÍ árið 2001 og var formaður félagsins til 2007. Björn hefur fengið viðurkenningar frá heildarsamtökunum fyrir sín góðu störf en hann hefur verið sæmdur bæði gullmerki UMFÍ og ÍSÍ. Þá var hann gerður að heiðursfélaga UMFÍ árið 2011.

Guðni Sighvatsson er íþróttakennari að mennt og hefur kennt í Rangárþingi og Bláskógabyggð samhliða því að þjálfa ýmsar greinar hjá nokkrum aðildarfélögum HSK. Guðni sat í borðtennisnefnd HSK um árabil og frá árinu 2012 hefur hann verið gjaldkeri glímuráðs HSK. Guðni hefur einnig komið að æskulýðs- og íþróttamálum sem sveitarstjórnarmaður, en hann situr í sveitarstjórn Bláskógabyggðar og er formaður íþrótta- og lýðheilsunefndar sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili.

 

Kjartan með heiðurskross ÍSÍ

Á þinginu var jafnframt Kjartan Lárusson, frá Umf. Laugdæla, sæmdur heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, en það er æðsta heiðursmerki ÍSÍ.

Kjartan, sem varð sjötugur á dögunum, hefur verið í forystusveit íþróttahreyfingarinnar í rúm 50 ár. Hann var kosinn formaður Umf. Laugdæla árið 1974 og hefur verið sjálfboðaliði í hreyfingunni óslitið síðan. Hann hefur tekið virkan þátt í stjórnar- og nefndarstörfum HSK í áratugi, var gjaldkeri sambandsins 1980-1982, formaður glímunefndar og síðan gjaldkeri Glímuráðs Skarphéðins frá stofnun þess árið 1998 til 2007. Kjartan er í dag formaður sögu- og minjanefndar HSK.

Kjartan sat jafnframt í stjórn Glímusambands Íslands og var varaformaður þess um tíma. Þá var hann í um 20 ár í stjórn Glímudómarafélags Íslands, þar af sem formaður í um 15 ár og er enn að sem glímudómari.

Á íþróttaferli sínum var Kjartan mikill keppnismaður, svosem í körfuknattleik, blaki og glímu en hann var meðal annars í gullaldarliði Laugdæla sem vann Íslandsmeistaratitilinn í blaki 1979 og 1980.

Kjartan hefur hlotið margháttaðar viðurkenningar fyrir störf sín innan íþróttahreyfingarinnar. Hann hefur verið sæmdur gullmerkjum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Glímusambands Íslands, HSK og Umf. Laugdæla. Hann er heiðursfélagi Glímusambands Íslands, hefur hlotið nafnbótina öðlingur ársins hjá HSK, auk þess að hafa hlotið starfsmerki UMFÍ. Glímusamband Íslands útnefndi Kjartan sem Glímueldhuga ársins 2024.

 

Þorbjörg sæmd gullmerki ÍSÍ

Á þinginu í Aratungu sæmdi ÍSÍ einnig Þorbjörgu Vilhjálmsdóttur, Íþróttafélaginu Suðra, með gullmerki. Hún hefur í áratugi unnið að framgangi íþrótta fatlaðra innan íþróttahreyfingarinnar. Fyrst með Íþróttafélaginu Eik á Akureyri en eftir að hún flutti suður tók hún til starfa hjá Suðra og var meðal annars formaður félagsins frá 2006 til 2012. Þorbjörg hefur verið formaður íþróttanefndar fatlaðra hjá HSK frá árinu 2013. Hún hefur verið leiðandi í því að koma á samstarfi milli Suðra og Gnýs, sem er íþróttafélagið á Sólheimum. Þá hefur hún tekið þátt í verkefnum Íþróttasambands fatlaðra til fjölda ára.

Þá voru handknattleikskonan Perla Ruth Albertsdóttirrr (Umf. Selfoss) og skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson (Skotíþróttafélagi Suðurlands) valin íþróttakona og íþróttakarl HSK árið 2024.

Perla Ruth var lykilleikmaður í meistaraflokksliði Selfoss sem vann Grill 66 deildina á síðasta keppnistímabili. Hún var gríðarlega öflug í yfirburðarliði Selfoss, skoraði 7,85 mörk að meðaltali í leik ásamt því að leika lykilhlutverk í varnarleik liðsins. Perla lék alla leiki íslenska landsliðsins á síðasta ári, meðal annars á Evrópumótinu sem fram fór í desember.

Hákon Þór náði þeim frábæra árangri að fá keppnisrétt á Ólympíuleikunum í París. Í aðdraganda leikanna tók hann þátt í fjölda erlendra móta með góðum árangri. Hákon stóð sig vel á sínum fyrstu Ólympíuleikum og varð í 23. sæti í haglabyssuskotfimi með 116 stig af 125 mögulegum. Þetta er besti árangur skotmanns frá Íslandi á Ólympíuleikum frá upphafi. Innanlands stóð Hákon sig einnig vel og varð Íslands- og stigameistari STÍ auk þess sem hann jafnaði sitt eigið Íslandsmet í greininni með 122 stig.

 

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá þinginu, sem Engilbert Olgeirsson tók.