Geta amma og afi tekið þátt í Unglingalandsmóti?
Unglingalandsmót UMFÍ er fyrir alla, konur og kalla með skalla og börn og ungmenni sem verða 11 ára á árinu og upp í 18 ára ungmenni sem geta skráð sig í fjölda íþróttagreina sem eru í boði. Á Unglingalandsmóti UMFÍ, sem verður í Borgarnesi um verslunarmannahelgina, getur öll fjölskyldan verið með því afþreying er fyrir alla langt fram á kvöld.
Það kostar aðeins 9.400 krónur að skrá þátttakanda á milli 11 – 18 ára mótið og íþróttahéruð niðurgreiða mörg hver gjaldið. Með þátttökugjaldinu fylgir aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna. Ekki þarf að greiða fyrir að taka þátt í viðburðum fyrir alla fjölskylduna, sundleikum fyrir yngri systkini og fleiri viðburðum.
Meira að segja tónleikarnir, sem verða á tjaldsvæðinu á hverju kvöldi, eru tónelsku fólki að kostnaðarlausu. Á tónleikunum koma m.a. fram Sigga Ózk, sem söng á Símamótinu, GDRN, bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór, hljómsveitin Meginstreymi og margir fleiri.
Öll saman á tjaldsvæðinu
Amma og afi geta að sjálfsögðu komið á alla tónleikana og Sigga frænka og Pétur frændi og krakkaskarinn þeirra sömuleiðis. Þau geta líka gist í hjólhýsinu sínu eða tjaldvagninum á tjaldsvæði mótsins með þátttakandanum.
Þótt aðgangur að svæði sé innifalinn í miðaverðinu þá þarf að greiða sérstaklega fyrir notkun á rafmagni. Afi og amma geta farið á skráningarsíðu mótsins og greitt þar fyrir notkun á tjaldsvæði. Það kostar 4.900 krónur til 29. júlí en hækkar eftir það.
Hentugast er fyrir alla að greiða fyrir þátttöku og rafmagn á tjaldsvæði á skráningarsíðu mótsins. Við innkomu á tjaldsvæðið mun líka björgunarsveitarfólk, sem sinnir öryggisgæslu á svæðinu, vera með posa til að taka á móti greiðslu fyrir rafmagn.
Eins og sumir kannast við sem hafa komið á Unglingalandsmót UMFÍ þá er tjaldsvæðinu skipt upp eftir íþróttahéruðum. Í Borgarnesi verða nokkur saman í þyrpingu og gefst því frábært tækifæri til að kynnast nýju fólki.
Sem dæmi eru Héraðsssamband Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH), Íþróttabandalag Akraness (ÍA), Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN) og félagsfólk í Ungmennasambandi Borgfirðinga (UMSB) saman á skika, ungmennafélagar að austan undir merkjum Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) og Ungmennasambandinu Úlfljóti (USÚ) á öðrum og þar fram eftir götunum.
Við kaup á rafmagni á tjaldsvæði er skiptingin skýr.
Smelltu hér til að kaupa rafmagn á tjaldsvæði
Geymum bílinn
Við mælum með því að fólk noti aðra fararskjóta en fjölskyldubílinn til að fara á milli tjaldsvæðis og mótssvæðis.
Á meðan Unglingalandsmótinu í Borgarnesi stendur munu tveir strætisvagnar ganga þar oft á milli og fara þeir frá tjaldsvæði og eins nálægt mótssvæðinu og mögulegt er. Ekkert kostar í strætóana á meðan mótinu stendur.
Sjáumst á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina!
Á myndunum sem hér fylgja með má meðal annars sjá stemninguna á tjaldsvæðinu í Borgarnesi þegar Unglingalandsmótið var haldið þar árið 2016.