Gleði á gagnlegum vorfundi UMFÍ

„Þetta er kannski hálftímavinna, en vinna sem getur skilað sér í milljóna endurgreiðslum og hvötum,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. Á vorfundi UMFÍ um síðustu helgi hvatti hún forráðafólk íþróttahéraða til þess að skrá félögin á Almannaheillaskrá Skattsins. Því fylgja ýmsir kostir á borð við 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu á byggingastað við byggingu, viðhald og endurbætur mannvirkja, skilgreindur virðisaukaskattur, þau greiða ekki fjármagnstekjuskatt og svo má lengi telja.
Auður sagði í erindi sínu aðeins sex íþróttahéruð nú þegar á Almannaheillaskrá skattsins. Þau geti verið mun fleiri. Hún nefndi sem dæmi að Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) hafi sparað sér 1,5 milljónir króna með skráningu á Almannaheillaskrá Skattsins.
„Þetta eru mörg félög sem sitja á sjóðum og þau munar um þessar fjárhæðir í starfið,“ sagði hún.
Hvatti til að nýta sjóðina
Vorfundur UMFÍ fór fram í húsnæði Skólabúða UMFÍ á Reykjum í Hrútafirði og var hann vel sóttur. Fundurinn hófst í raun á föstudagskvöldinu með óformlegri samveru, mat og einkar tápmiklu fjörefli.
Á laugardag rann upp vorfundurinn sjálfur.
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, setti fundinn og bauð gesti velkomna. Á eftir honum fræddi Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, fundargesti um starfsemi UMFÍ og ýmsar nýjungar í starfinu auk tóla sem sambandsaðilar geta fengið aðgang að.
Hún sagði meðal annars frá Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ og Umhverfissjóði UMFÍ. Umsóknum í sjóðina hefur fjölgað, sérstaklega eftir að nýtt umsóknakerfi frá Smart Select var tekið innleitt.
Auk þess hvatti Auður fulltrúa sambandsaðila UMFÍ sem sátu fundinn til að sækja um í Hvatasjóð íþróttahreyfingarinnar, nýjan sjóð ÍSÍ og UMFÍ með stuðningi Mennta- og barnamálaráðuneytis.
Hvatasjóðurinn styrkir verkefni sem stuðla að útbreiðslu íþróttastarfs og þátttöku allra barna. Sérstök áhersla er á verkefni sem tengjast börnum með fatlanir, börnum frá tekjulægri heimilum og börnum með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.
Í Hvatasjóðinn geta sótt íþróttahéruð ÍSÍ og UMFÍ, íþróttafélög og deildir innan ÍSÍ og UMFÍ, sérsambönd í samstarfi við Íþróttahéruð, félög eða deildir félaga.
Til viðbótar ræddi Auður um netlausnina Vett, sem UMFÍ hefur fengið aðgang að fyrir sambandsaðila. Hvatti hún fólk til að nýta sér möguleikana sem Vett býður upp á. Í gegnum Vett geta félög boðið upp á streymisþjónustu, sett upp vefverslun og námskeiðakerfi.
Auður fræddi fundargesti jafnframt um myndvistunarkerfið Filecamp, sem sambandsaðilar geta fengið að nýta sér hjá UMFÍ til geymslu mynda. Auk þess er í innleiðingarferli vörumerkjahúsið Frontify, sem fleiri geta fengið aðgang að.
Auður ræddi jafnframt um mýmörg samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ, starfið sem fram fer á svæðisstöðvum íþróttahéraðanna og margt fleira. Til viðbótar við allt annað upplýsti Auður að UMFÍ er að sækja um vottun þegar kemur að umsóknum í Erasmun-verkefni. Þegar það verður í höfn geta sambandsaðilar UMFÍ haft UMFÍ með í Erasmus-umsóknum.
„Þarna eru gríðarleg sóknarfæri fyrir íþróttahreyfinguna,“ sagði Auður og hvatti fundargesti til að nýta sér það sem UMFÍ hefur upp á að bjóða.
„Við erum að reyna að fjölga tólum og tækjum sem nýtast hreyfingunni. Þetta eru allt nýjungar og verkfæri sem eru ósýnileg en tryggja að við höldum betur utan um starfið og getum brugðist vel og hratt við ýmsum málum. Við þurfum ekki hvert okkar að finna upp hjólið heldur að leysa verkefnin, sem eru sambærileg,“ sagði hún.
Kraftmikið starf svæðisfulltrúa
Fjöldi annarra erinda fylgdu á eftir erindi Auðar.
Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri Allir með, ræddi um verkefnið og vandann við að finna bæði iðkendur og ná til þeirra til að fjölga fötluðum einstaklingum í íþróttum.
Gunnar Þór Gestsson, varaformaður UMFÍ og formaður Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS), fjallaði um tillögu og leiðir sem fela í sér að hrinda þeim hindrunum úr vegi sem hamla sameiningum íþróttahéraða.
Á eftir fylgdu erindi frá svæðisfulltrúum íþróttahéraðanna. Fulltrúar þeirra voru þau Petra Ruth Rúnarsdóttir, svæðisfulltrúi á Suðurnesjum, og Heiðar Mar Björnsson, annar tveggja svæðisfulltrúa á Vesturlandi. Þau fóru yfir vinnu og verkefni starfsfólks svæðisstöðva íþróttahéraðanna, fjölluðu um greiningarvinnu hópsins, þátttöku í mörgum verkefnum og þeim sem eru á fyrstu metrum, samræðum við íþrótta- og tómstundafulltrúa og margt fleira.
Að lokum var boðið upp á afar fróðlegt og hressandi erindi frá Boga Hallgrímssyni frá KVAN um liðsheild.
Að síðustu skiptu þátttakendur vorfundarins sér niður í umræðuhópa og ræddu í þaula um ákveðin mál.
Jóhann Steinar sleit vorfundinum og sagði ljóst og einkar ánægjulegt að UMFÍ hafi tekist að skapa vettvang fyrir fulltrúa sambandsaðila UMFÍ þar sem þeir geti rætt saman málin á hreinskilinn og opinn hátt og tjáð sig um hin ýmsu atriði.







