Gott að spegla sig í áskorunum annarra
Samtök um almenningsíþróttir og menningu
„Það er frábært að geta speglað verkefni og áskoranir við þau sem hafa gengið í gegnum þær og skilur mann 100%,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. Hún fundaði í gær með Mogens Kirkeby, forseta grasrótarsamtakanna ISCA en UMFÍ hefur verið aðili að þeim um árabil.
ISCA heita fullu nafni International Sport and Culture Association og eru samtök um almenningsíþróttir og menningu fjölmargra landa. UMFÍ hefur lengi tekið þátt í fjölmörgum verkefnum ISCA og í samstarfi við ISCA og önnur aðildarfélög. Þekktasta verkefnið er Move Week, sem hér á landi var þekkt sem Hreyfivika UMFÍ. Önnur verkefni eru tengd aukinni þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþróttastarfi.
Mikil og góð samvinna er á milli UMFÍ og DGI og koma margar fyrirmyndir að verkefnum UMFÍ frá DGI.
Óþarfi að finna hjólið upp mörgum sinnum
Mogens er forseti ISCA og hefur hann gegnt því embætti frá árinu 2013. Hann þekkir vel til UMFÍ bæði í gegnum embætti sitt sem forseti ISCA og sem stjórnarmaður hjá Danmarks Gymnastik og Idrætsforeningen (DGI) sem eru systursamtök UMFÍ í Danmörku.
Hann hefur komið margoft til Íslands og var gestur á Landsmótinu á Sauðárkróki árið 2018. Mogens sagði alltaf jafn gaman að koma til landsins og ferðast um. Í þetta sinn ætlar hann að nýta ferðina og heimsækja Vestmannaeyjar.
Mogens kíkti í heimsókn í þjónustumiðstöð UMFÍ í íþróttamiðstöðinni og ræddi við Auði Ingu um starfsemi og verkefni UMFÍ, ISCA og DGI.
Hann hrósaði UMFÍ fyrir góða aðstöðu og hvatti til þátttöku á árlegri ráðstefnu ISCA, sem að þessu sinni fer fram í Madrid á Spáni í nóvember næstkomandi.