Greiða metupphæð til aðildarfélaga UMFÍ
„Þetta er hæsta upphæð sem við höfum greitt út til aðildarfélaga UMFÍ og nýtist til að bæta hreyfinguna fyrir alla,“ segir Sigurður Óskar Jónsson, formaður Sjóða- og fræðslunefndar, sem jafnframt er stjórn Fræðslu- og verkefnasjóðs UMFÍ. Sjóðurinn úthlutaði á dögunum 14,2 milljónum króna til 105 verkefna. Þetta er hæsta upphæð sem úthlutað hefur verið úr sjóðnum í einu. Alls bárust sjóðsstjórn 129 umsóknir að þessu sinni.
Styrkja verkefni innan UMFÍ
Markmið Fræðslu- og verkefnasjóðs er að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar í samræmi við stefnu UMFÍ, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun í félagsmálum og félagsstarfi. Rétt til umsóknar úr sjóðnum eiga sambandsaðilar UMFÍ, aðildarfélög sem eru virk í starfi og deildir innan þeirra. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.
Sjóðsstjórn úthlutar styrkjum úr Fræðslu- og verkefnasjóði tvisvar á ári og var þetta síðari úthlutun ársins. Fyrri úthlutun ársins var í vor og hljóðaði upp á 10,8 milljónir króna. Sjóðurinn hefur því styrkt verkefni á vegum félaga innan UMFÍ fyrir um 25 milljónir króna á þessu ári.
Við úthlutanir úr sjóðnum á þessu ári hefur verið áhersla á átaksverkefni til þess að snúa við brottfalli barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19, verkefna sem beinast að því að ná til fólks sem staðið hefur utan við skipulagt íþróttastarf og að fjölga þátttakendum á Unglingalandsmóti UMFÍ.
Hér má skoða meira um Fræðslu- og verkefnasjóð og úthlutanir