Fara á efnissvæði
29. janúar 2019

Guðmundur Gíslason látinn

Guðmundur Gíslason, fyrrverandi starfsmaður UMFÍ, ritstjóri Skinfaxa og íþróttakennari, lést 22. janúar síðastliðinn.

Guðmundur útskrifaðist frá íþróttakennarskólanum Laugarvatni árið 1980. Hann kenndi íþróttir á Eskifirði árin 1980 til 1984 ásamt því að starfa mikið  fyrir ungmennafélagshreyfinguna á Austurlandi á sama tíma.  Guðmundur var starfsmaður UMFÍ árin 1984 til 1987 og ritstjóri Skinfaxa.

Guðmundur tók við sem ritstjóri Skinfaxa árið 1985. Um hann segir í sérriti í tilefni af 100 ára útgáfuafmæli tímaritsins að honum hafi verið margt til lista lagt. Hann hafi m.a. verið laginn við að að fást við tölvur sem þá voru nýkomnar til sögunnar.

Guðmundur innleiddi fjölmargar nýjungar í Skinfaxa. Í ársbyrjun 1986 stækkaði hann brot tímaritsins í A4 og hefur það verið í þeirri stærð upp frá því. Hann innleiddi nýja tækni við vinnslu blaðsins. UMFÍ keypti öfluga tölvu og tók Guðmundur sem ritstjóri blaðsins við uppsetningu og umbroti Skinfaxa fyrir prentsmiðjuna.

 

Guðmundur fór ótroðnar slóðir og voru efnistök tímaritsins fjölbreytt. Hann birti mörg viðtöl við þekkta einstaklinga. Margir þeirra voru utan ungmennafélagshreyfingarinnar og höfðu frá ýmsu að segja. Skák-, bridds – og vísnaþáttur höfðu þá verið um sinn í blaðinu og bættist nú við það poppþáttur og umfjöllun um fugla.

Guðmundur hætti sem ritstjóri Skinfaxa í ársbyrjun 1987.

Árin 1991 til 1997 starfaði Guðmundur á skrifstofu ÍSÍ. Frá árinu 1998 vann hann að ýmsum félagsmálum fyrir Ungmennafélag Grundarfjarðar (UMFG) og Golfklúbbinn Vestarr. Þar á meðal hafði hann umsjón með getraunastarfi UMFG.

Guðmundur var ætíð ötull félagsmaður og ávallt tilbúinn til aðstoðar þegar til hann var leitað.

Í fyrravor var Guðmundur heiðraður fyrir störf sín fyrir ungmennafélagshreyfinguna og var hann á héraðsþingi Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) sæmdur starfsmerki UMFÍ.

UMFÍ þakkar Guðmundir vel unnin störf og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá þegar Ragnheiður Högnadóttir, sem situr í stjórn UMFÍ, afhenti Guðmundi starfsmerkið á héraðsþingi HSH vorið 2018.