Guðmundur og Haukur hlutu æðsta heiðursmerki UMFÍ
Þeir Guðmundur Kr. Jónsson og Haukur Valtýsson voru gerður að heiðursfélögum UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ í gærkvöldi. Heiðursfélagakross sem þeir fengu af tilefninu er æðsta heiðursmerki samtakanna. Haukur er fyrrverandi formaður UMFÍ og Guðmundur Kr. hefur lengi verið framarlega í forystu Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) og Ungmennafélags Selfoss. Báðir hafa þeir verið sæmdir nær öllum þeim heiðursviðurkenningum fyrir störfin sem hægt er að fá innan íþróttahreyfingarinnar.
Nánar um Guðmund og Hauk
Guðmundur Kr. Jónsson
Guðmundur Kr. Jónsson hjá Ungmennafélagi Selfoss er birtingarmynd íþrótta.
Guðmundur hóf ungur að iðka frjálsar íþróttir og varð afburða spretthlaupari og stökkvari. Hann vann mörg glæst afrek bæði á héraðs- og landsvísu og var meðal annars stigahæsti keppandinn í karlaflokki á Landsmótinu fræga á Laugarvatni árið 1965. Móti sem er útgangspunktur allra góðra móta í sögu UMFí.
Guðmundur varð snemma mjög öflugur félagsmálamaður og tók virkan þátt í öllu starfi Ungmennafélags Selfoss, hann varð reyndar virkari ef starfið fól í sér hreyfingu og hlaup. Hann hefur verið formaður Ungmennafélags Selfoss frá 2014 til 1017, formaður frjálsíþróttadeildarinnar í næstum áratug, verið vallarstjóra og framkvæmdastjóri.
Það heitir að vera á öllum póstum.
En Guðmundur hefur líka starfað ofar í hreyfingunni. Hann var kosinn formaður HSK árið 1981 og hélt um stjórnartaumana í átta ár með miklum myndarskap. Hann var líka í aðalstjórn ÍSÍ í tvö ár.
Guðmundur Kr. tekur enn virkan þátt í störfum sambandsins. Oft er leitað til hans sem þular á frjálsíþróttamótum HSK enda röggsamur og vel til forystu fallinn – og svo er það auðvitað rödd og stíll.
Í bókinni HSK í 100 er fjallað um Guðmund Kr. Þar segir að á engan sé hallað þótt hann sé talinn einn af dugmestu og starfsömustu foringjum Héraðssambandsins Skarphéðins.
Það rammar inn störf Guðmundar Kr.
En af ofansögðu ætti auðvitað að vera sérstakur kafli um hann í næstu útgáfu bókarinnar.
Guðmundur hefur fengið viðurkenningar fyrir margháttuð störf sín fyrir hreyfinguna í áratugi. Þar á meðal er gullmerki HSK, hann var gerður að heiðursformanni HSK árið 2018 og er sá þriðji í sögu sambandsins til að hljóta þá heiðursnafnbót. Hinir eru Jóhannes Sigmundsson og Sigurður Greipsson, sem einmitt tók við formennsku í HSK fyrir 101 ári síðan og stofnaði íþróttaskólann sem þetta hótel er reist í kringum.
Hann hefur hlotið allar æðstu viðurkenningar ÍSÍ, gullmerki og heiðurskross og er heiðursfélagi.
Guðmundur fékk starfsmerki UMFÍ árið 1979 og var sæmdur gullmerki UMFÍ 2010.
Nú bætist ein ný í safnið.
Hann er vel að þessu kominn og óskum við honum allra heilla.
Haukur Valtýsson
Hauk Valtýsson úr Fnjóskadal hljóta flestir að þekkja í íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni. Íþróttaferill Hauks hófst hjá Héraðssambandi Þingeyinga en þar keppti hann í glímu á árunum 1971-1976 og varð íslandsmeistari einu sinni. Haukur er reyndar þekktari sem blakmaður og hefur leikið um 1200 leiki í meistaraflokki með Íþróttafélagi Menntaskólans á Akureyri, Íþróttafélagi stúdenta og Knattspyrnufélagi Akureyrar.
Haukur keppti fyrir menntaskólaliðið á árunum 1973-1977 en á þeim tíma var það eitt af aðildarfélögum Íþróttabandalags Akureyrar, með Íþróttafélagi stúdenta landaði hann tveimur bikarmeistaratitlum. Haukur bætti við tveimur Íslandsmeistaratitlum með KA og fleiri titlum eftir því sem árunum fjölgaði. Að auki lék hann 27 landsleiki í blaki. Haukur þjálfaði líka nokkur blaklið Akureyringa í gegnum tíðina auk þess að vera öflugur á mótum öldunga í blaki.
Haukur er jafn öflugur innan vallar sem utan. Hann hefur látið til sín taka á félagsstörfum, var kosinn í varastjórn Íþróttabandalags Akureyrar árið 2009 og sinnti þar störfum samhliða því að taka sæti í stjórn UMFÍ. Þar var hann varaformaður árin 2011 til 2015 og formaður eftir það til ársins 2021 þegar hann ákvað að gefa ekki kost á sér áfram. Á sama tíma sat hann í fjölda nefnda, m.a. í framkvæmdasstjórn UMFÍ, mótanefndum, nefnd um inngöngu íþróttabandalaga að UMFÍ, nefnd um skiptingu fjármagns til UMFÍ og mörgum fleirum.
Það vill svo til að margir góðir hlutir gerast þar sem Haukur er hverju sinni. Sem dæmi má nefna að hann sat í byggingarnefnd Bogans á Akureyri, var í undirbúningsnefnd vegna byggingar nýrrar aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir og skilaði sér í nýjum fjölnotavelli á svæði Þórs og svo má lengi telja.
Í formannstíð Hauks hjá UMFÍ voru líka tekin þau stórmerkilegu og reyndar sögulegu skref að aðildarumsókn íþróttabandalags Akureyrar, Íþróttabandalags Reykjavíkur og ÍÞróttabandalags Akraness inn í UMFÍ var samþykkt. Það gerðist eftir tilraunir í áratugi.
Þótt Haukur hafi stigið til hliðar sem formaður UMFÍ fyrir tveimur árum þá hefur hann ekki sest í helgan stein til að njóta norðlenskrar sólar. Þvert á móti heldur hann áfram félagsstörfum sínum og tekur hann þátt í mörgum verkum íþróttahreyfingarinnar, mætir á fjölmarga viðburði og situr fyrir hönd UMFÍ í Íþróttanefnd ríkisins.
Á síðasta sambandsþingi UMFÍ var Haukur heiðraður með gullmerki UMFÍ. Þar var hann reyndar hlaðinn lofi og viðurkenningum, heiðraður með gullmerki ÍSÍ og heiðursskyldi UMSK.
Frá þinginu á Húsavík árið 2021 hefur Haukur verið gerður að heiðursfélaga ÍBA.
Nú bætist enn í bunkann því Haukur verður hér gerður að heiðursfélaga UMFÍ.