Fara á efnissvæði
04. desember 2023

Guðni forseti: Betra að segja nei

Nemendur úr Hrafnagilsskóla í Eyjafirði og Borgarholtsskóla hlutu verðlaun fyrir verkefni sín, sem unnin voru í tengslum við Forvarnardaginn 2023. Verðlaun voru veitt í tveimur flokkum. 

Þrír nemendur úr Hrafnagilsskóla hlutu verðlaun í flokki grunnskóla. Þau gerðu myndband um tóbakslaust líf unglinga. Nemendurnir eru: Emelía Lind Brynjarsdóttir Lyngmo, Katrín Eva Arnþórsdóttir og Sunna Bríet Jónsdóttir.

Fjórir nemendur úr Borgarholtsskóla hlutu verðlaun í flokki framhaldsskóla en þeir gerðu veggspjald þar sem vakin var athygli á mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar. Nemendurnir eru: Daníel Orri Gunnarsson, Eybjörg Rós Tryggvadóttir, Snorri Steinn Svanhildarson og Sindri Þór Guðmundsson. 

Verðlaunahafar mættu við afhendinguna ásamt forráðafólki.

Við þetta tækifærið hvatti forseti Íslands ungt fólk til að nota frelsi sitt og ábyrgð á sjálfu sér til að verða enn betri manneskjur og nýta kraftinn sem í því býr til góðra verka. Hann sagði jafnframt að þvert á það sem sumir segi þá geti Íslendingar hugsað fram á veg. Forvarnardagurinn sé gott dæmi um það. 

„Framtíðin er björt fyrir okkur sem eldri eru, því unga fólkið mun hugsa vel um okkur í ellinni. Það sem við leggjum í púkkið, sem erum ögn eldri, er að benda kurteislega á það að það er betra að vera herra í eigin lífi og ráða því sjálf eða sjálfur hvernig maður ver sínu lífi. Þá er betra að segja nei,“ sagði Guðni og minnti á að Forvarnardagurinn snúist um það að ungt fólk fresti því eins lengi og unnt er að neyta áfengis. 

Alma Möller landlæknir afhenti verðlaun Forvarnardagsins með forseta Íslands og benti hún á kosti þess að fresta því eins lengi og unnt er að neyta áfengis til að leyfa heilanum að þroskast. 

 

Að Forvarnardeginum standa: 

Embætti landlæknis í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátarnir, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Planet Youth, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés, Heimili og skóla og Samstarf félagasamtaka í forvörnum. 

Vefsíða Forvarnardagsins: https://www.forvarnardagur.is/

 

Veggspjaldið má sjá hér