Guðrún og fjölskylda er spennt fyrir landsmótinu
„Við erum mjög spennt fyrir mótinu í bænum. Hér verður fullt af fólki í bænum og mikið í boði, bæði viðburðirnir í kringum Landsmót UMFÍ 50+ og Danska daga,“ segir Guðrún Björg Guðjónsdóttir, íbúi í Stykkishólmi.
Fjölskylda hennar ætlar að taka virkan þátt í sem flestum viðburðunum sem verða í bænum um Jónsmessuhelgina. Guðlaugur Harðarson, maður hennar, ætlar sem dæmi að taka þátt í golfi og eru margir í þeirra vinahópi áhugasöm um púttkeppnina og fleiri greinar.
Á myndinni hér að ofan má sjá Guðrúnu á milli hlaupagarpsins Óskars Guðmundssonar og manns hennar, Guðlaugs Harðarsonar.
Byrjaði að æfa pílu fyrir ári
Guðrún Björg segir mikið og fjölbreytt framboð á íþróttum í Stykkishólmi eins og reyndar á sambandssvæði Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH), sem heldur Landsmót UMFÍ 50+ með UMFÍ og Stykkishólmi.
Nýjasta greinin er píla, sem verður í boði á mótinu. Þau Guðrún Björg og Guðlaugur byrjuðu að spila pílu fyrir ári og eru að skoða að skrá sig í greinina.
Guðrún Björg er spennt fyrir mótinu enda bæði í fyrsta sinn sem það er haldið í Stykkishólmi. Spennan skýrist ekki síður af því að bæjarhátíðin Danskir dagar verða haldnir um sömu helgina. Þeir hafa í gegnum tíðina verið haldnir í lok ágúst en verða nú í fyrsta sinn um Jónsmessuna.
Guðrún Björg segir alla gistingu af þeim sökum uppbókaða og verði tjaldsvæðið því pakkað.
Guðrún Björg viðurkennir hins vegar að sjálf verði hún að stórum hluta fjarri góðu gamni því hún muni standa vaktina í Gallerí Bragga, sem hún rekur ásamt fleirum. Galleríið er rétt við golfvöllinn og því stutt fyrir Guðrúnu að kíkja á bónda sinn og kunningjafólk þegar röðin kemur að þeim á vellinum.
Búið að opna fyrir skráningu
Nú er þegar hægt að skrá sig á Landsmót UMFÍ 50+. Skráningarkerfið er mjög einfalt og þægilegt í notkun. Við skráningu þurfa notendur aðeins að fylgja og lesa vel það sem upp kemur á skjánum.
Eftir að viðkomandi hefur skráð sig til þátttöku á mótinu, skrifað nafn og helstu upplýsingar þá er hægt að skrá sig í greinar.
Fólk getur skráð sig í eins margar greinar og það langar til að taka þátt í.
Á næstu dögum eftir skráningu birtist reikningur í heimabanka þess sem er skráður greiðandi á mótinu. Greiðsla er forsenda þess að geta tekið þátt í mótinu og fá afhent armband, sem gildir sem þátttökumiði á Landsmóti UMFÍ 50+.
Fjölbreyttar greinar
Keppnisgreinar Landsmóts UMFÍ 50+ eru fjölbreyttar og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þátttökugjald er 5.500 krónur fyrir 50 ára og eldri. Þátttakendur eru beðnir um að koma við í þjónustumiðstöð mótsins og sækja hvítt armband, sem gildir á alla keppni og viðburði mótsins. Kaupa þarf sérstakan aðgang á matar- og skemmtikvöldið og kostar hann 4.000 krónur.
Á meðal keppnisgreina eru: boccía, götuhlaup (5 km), ringó, golf, sund, bdrge, hjólreiðar, hestaíþróttir, frjálsar íþróttir og margt fleira.
Margt í boði fyrir 18 ára og eldri
Nokkrar greinar eru opnar fyrir yngri þátttakendur. Þeir sem hvorki eru fimmtugir eða eldri eða verða það á árinu geta keypt rautt armband á mótssvæðinu. Rauða armbandið gildir á ákveðna viðburði, bæði einstaka keppni og kynningar og kennslu.
Rauð armbönd kosta 2.000 krónur. Í dagskránni er hægt að sjá hvaða aðgang hvít og rauð armbönd veita. Þátttakendur með rauð armbönd geta m.a. tekið þátt í frisbígolfi, petanque, pílukasti, hlaupaskotfimi, badmintoni og borðtennis.