Fara á efnissvæði
13. maí 2025

Gunnar Páll hjá ÍBV: Við erum spennt fyrir UMFÍ

„Við í stjórn ÍBV höfum alltaf talað fyrir því í samræðum við forsvarsfólk aðildarfélaga okkar að við séum sterkari saman og sameinuð. Við verðum sterkari íþróttahreyfing með aðild að UMFÍ,“ segir Gunnar Páll Hálfdánsson, formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja (ÍBV). Stjórn bandalagsins sótti um aðild að UMFÍ í kringum áramótin. Stjórn UMFÍ hefur samþykkt umsóknina. 

Síðasta skrefið verður að samþykkja það innan raða ÍBV að sækja formlega um aðildina. Málið verður tekið fyrir á þingi bandalagsins í dag. Gangi allt eftir mun ÍBV ganga í raðir UMFÍ. Þá verður þetta í fyrsta sinn í sögu íþróttahreyfingarinnar sem öll íþróttahéruð landsins og aðildarfélög þeirra eru aðilar að UMFÍ. 

Þessi vegferð hófst reyndar fyrir þrjátíu árum þegar nokkur íþróttabandalög sóttu um aðild að UMFÍ. Það gekk ekki eftir fyrr en á sambandsþingi UMFÍ haustið 2019 þegar umsókn þriggja bandalaga var samþykkt. Það voru Íþróttabandalag Akraness (ÍA), Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR). Við það stækkaði umfang UMFÍ gríðarlega. Síðan þá hafa bæst við Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH), Íþróttabandalag Reykjanesbæjar (ÍRB) og Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS). 

Gunnar Páll segir ÍBV alltaf leita leiða til að efla íþróttahreyfinguna í Eyjum. „Með þessari aðild teljum við okkur stíga mikilvægt skref í þá átt,“ segir hann og bætir við að það hafi verið skýrt hjá Vestmannaeyingum þegar ljóst var að öll íþróttabandalög landsins væru orðnir sambandsaðilar UMFÍ, að stjórn bandalagsins þyrfti að sækja um aðild. Það bindi íþróttahreyfinguna sterkari böndum, geri hana samhentari og í raun alla íþróttahreyfinguna sterkari, sérstaklega þegar kemur að viðræðum gagnvart stjórnvöldum og öðrum.

Viðtalið í Skinfaxa

Hægt er að lesa viðtalið við Gunnar Pál og miklu meira í nýjasta tölublaði Skinfaxa. Hægt er að smella á forsíðu blaðsins hér að neðan og lesa blaðið á umfi.is.

Á meðal annars efnis í blaðinu: 

  • Stjórnir sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélaga í tölum.
  • Stjórnir í tölum og upphæðum.
  • Hver króna verður að fjórum í íþróttum.
  • Skólabúðalag vekur athygli á Reykjum.
  • Varðveitti UMFÍ-jakka í rúm 40 ár.
  • Krefst hugrekkis að fagna fjölbreytileikanum: Viðtal við Timothy Kennedy Shriver.
  • Heimsleikar Special Olympics í hnotskurn.
  • Nám um störf sjálfboðaliða langt á veg komið.
  • Vilja auka réttaröryggi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Árangurinn hvílir allur á starfi yngri flokka. 
  • Börn tóku skóflustungu að nýju íþróttahúsi í Borgarnesi. 
  • Ekki missa af viðburðum UMFÍ í sumar.
  • Tækifæri geta falist í sameiningu. 
  • 20 milljónum króna úthlutað úr Hvatasjóði. 
  • Konur og íþróttir - Baráttudagur kvenna.
  • Gamla myndin: Fjölbreytt afþreying í sumarbúðum UMFÍ á Reykjum.
  • Hvað er að frétta? ÍBV spennt fyrir UMFÍ.